Ýmis siðferðileg álitamál tengd umskurði

Sólveig Anna Bóasdóttir og Jón Ólafsson prófessorar við HÍ sitja …
Sólveig Anna Bóasdóttir og Jón Ólafsson prófessorar við HÍ sitja hér á fremsta bekk. mbl.is/Hanna

„Það er okkar sjónarmið að þetta stríði gegn mikilvægum ákvæðum barnasáttmálans,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna og heimspekingur, um umskurð drengja. Hún hélt erindi á hádegisfundi Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands í dag sem fjallaði um umskurð drengja og frumvarp þess efnis, sem nú liggur fyrir Alþingi.

„Ég hef raunverulega ekki tekið afstöðu til þess hvernig er best að útfæra svona bann. Það hefur verið í undirbúningi að setja sérstaka löggjöf sem kemur í veg fyrir að gerðar séu ótímabærar aðgerðir á kynfærum barna, til að vernda hagsmuni intersex barna. Við höfum tekið þátt í umræðu um undirbúning að slíkri löggjöf og væri ef til vill heppilegast að það væri inni í slíkri löggjöf,“ segir Salvör í samtali við mbl.is.

„Já og nei,“ segir Salvör aðspurð  hvort hún telji að mikið hafi verið um upphrópanir í umræðu um málið síðustu vikur. Hún segist almennt vera þeirrar skoðunar að það þurfi tíma til að þroska svona umræðu og því sé nauðsynlegt að taka hana.

„Það hefur margt mjög áhugavert komið fram í þessari umræðu en auðvitað líka upphrópanir, eigum við ekki að segja að það sé bara klassísk íslensk umræða.“

Umboðsmenn barna annars staðar á Norðurlöndum gegn umskurði

Fram kom í máli Salvarar á fundinum að árið 2013 hefðu umboðsmenn barna annars staðar á Norðurlöndunum undirritað yfirlýsingu, ásamt norrænum sérfræðingum í barnalækningum, þar sem fram kom að umskurður sem framkvæmdur væri, án læknisfræðilegra ástæðna, á einstaklingi sem ekki gæti veitt samþykki sitt, væri brot gegn siðferðilegum grunngildum læknisfræðinnar, þar sem inngripið væri óafturkræft, sársaukafullt og gæti leitt til alvarlegra fylgikvilla.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur ekki tekið tekið afstöðu til …
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur ekki tekið tekið afstöðu til frumvarpsins sem myndi gera umskurð drengja refsiverðan. mbl.is/Hanna

Viðbrögðin við þessari sameiginlegu yfirlýsingu voru þó dræm og það var í raun ekki fyrr en frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur um breytingar á almennum hegningarlögum kom fram, sem myndi gera umskurð drengja refsiverðan, sem málið hófst á flug í umræðunni.

Greinargerð með frumvarpinu „afskaplega rýr“

Jón Ólafsson, heimspekingur og prófessor við íslensku- og menningardeild HÍ, hélt erindi á fundinum þar sem hann fór yfir þau siðferðislegu grundvallaratriði sem hafa þarf í huga þegar rætt er um umskurð drengja. Hann sagði að greinargerðin sem fylgdi frumvarpinu hefði verið „afskaplega rýr“ og þess vegna hefði umræða um málið „kannski farið svona skrykkjótt af stað.“

Jón horfði til tveggja sjónarmiða í umræðum sínum um málið, tók ekki afstöðu með eða á móti, heldur velti upp því sem nota mætti sem rök í umræðunni.

Hann ræddi annars vegar þá grundvallarreglu að réttindi hópa hljóti að víkja fyrir réttindum einstaklinga, sem þýðir að jafnvel þótt það sé viðurkennt að hópar, meðal annars trúarhópar, geti átt rétt á sérmeðferð á ákveðnum sviðum, þá þýðir það ekki að slík sérmeðferð geti falið í sér skerðingu á réttindum einstaklinga sem tilheyra hópunum.

Hins vegar ræddi Jón það sjónarmið að ríkisvald í frjálslyndu samfélagi væri hlutlaust um gildi og að lífsgildi, trúarleg gildi og menningarleg gildi og önnur gildi væru einkamál.

„Það er fjarri því að ríkisvaldið sé hlutlaust um gildi. Í okkar samfélagi grípur ríkisvaldið til ýmissa ráða til að sveigja hegðun fólks í rétta átt, til dæmis í átt að lífsstíl sem er æskilegur eða með því að gera aðgerðir sem taldar eru bæta líf fólks, að sjálfsögðu er það gildishlaðið.“

Frumvarpið hefur vakið heimsathygli og vekur líka ýmsar siðferðislegar spurningar.
Frumvarpið hefur vakið heimsathygli og vekur líka ýmsar siðferðislegar spurningar. mbl.is/Hanna

Hann sagði bara þá staðreynd hversu algengur umskurður væri geta verið röksemd gegn banni. Tengingin við trúarbrögð geti einnig verið röksemd gegn banni, á meðan sú staðreynd að umskurður virðist í flestum tilfellum vera ónauðsynleg aðgerð séu rök fyrir því að banna aðgerðina.

Hann sagði slæðubann í Frakklandi sem var mikið til umræðu fyrir 20-30 árum hafa átt að koma í veg fyrir að konum innan ákveðinan hópa þar í landi væri mismunað, eða þær neyddar til að ganga með slæðu. „Það vakti hins vegar óvænta og mjög mikla mótstöðu þegar því var mótmælt á þeim forsendum að það kæmi í veg fyrir að íslamskar konur hefðu þau tækifæri sem þær ættu rétt til, að lifa í samræmi við trúarlega og menningarlega sjálfsmynd,“ sagði Jón.

Um umskurð sagði hann að almennt virtist hann að flestu leyti falla undir þá meginreglu að hefðir hópa ættu ekki að vera yfirsterkari réttindum einstaklinganna, þar sem börn og þá sérstaklega ungbörn gætu ekki gefið samþykki fyrir þessari aðgerð. Þó mætti velta því upp á hvaða hátt umskurðurinn kæmi inn í þau trúarbrögð sem væru til umræðu hverju sinni.

Lögmál eða venja innan trúarhópa

„Er umskurðurinn nauðsynlegur hluti af því að tilheyra ákveðnum trúarhópi og er nauðsynlegt samkvæmt trú þess hóps að hann fari fram á ákveðnum tíma? Eða er hann bara venja, sem er alsiða innan trúarhópsins en hefur í sjálfu sér ekki augljós eða bein áhrif á sjálfsmynd eða tengsl einstaklinga við sitt trúfélag eða sinn hóp?“ sagði Jón.

Í gyðingdómi er umskurður drengja hluti af trúarlögmálinu. Jón velti því upp hvort það væri þá verið að neita barni, sem fætt væri inn í ákveðna trúarhreyfingu um fulla og hefðbundna aðild að trúarhreyfingunni. Í öðru lagi mætti spyrja að því hvort að með banni gegn umskurði væri verið að setja sjálfsmynd einstaklingsins ákveðnar skorður.

Hann sagði að ef til vill væri hæpið að gera upp á milli trúarhópa eftir því hvort um væri að ræða lögmál í trúnni eða venju, en þó væri hægt að finna um það dæmi og það þyrfti að ræða.

Fundurinn var haldinn í Öskju í hádeginu í dag.
Fundurinn var haldinn í Öskju í hádeginu í dag. mbl.is/Hanna

Frumvarpið taki afstöðu og sé því ekki hlutlaust

„Í umræðunni sem hefur skapast um þetta mál hefur verið einblínt dálítið á þá skyldu ríkisvaldsins að tryggja réttindi einstaklinga,“ sagði Jón. Hann sagði að í framsetningu greinargerðar með frumvarpinu hefði verið lögð áhersla á hlutleysi ríkisvaldsins gagnvart trúarlegri eða menningarlegri afstöðu, en þó tekin afstaða sem birtist í því að aðgerðin er sögð óþörf, bent á að hún geti verið sársaukafull og jafnvel beinlínis skaðleg.

„Umræðan, þegar hún er lögð upp með þessum hætti, er að sjálfsögðu ekki hlutlaus. Hún er gildishlaðin og verður það óhjákvæmilega.“ 

Jón sagði að frekar ætti að nálgast málið með þeim hætti að umskurður drengja væri framandi í okkar menningu og vekti jafnvel óhug og ræða það á þeim grundvelli.

Fundinn í heild sinni má horfa á hér fyrir neðan, en honum var streymt beint á Facebook-síðu Siðfræðistofnunar. Þar hélt einnig erindi Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði, sem rýndi í umsögn biskups Íslands um frumvarpið. Hún sagði kjarnann í umsögn biskups hafa verið að mikilvægt væri að eiga samfélagslega umræðu um þetta mál áður en lengra væri haldið og að frumvarpið væri ekki ákjósanleg byrjun á uppbyggilegu samtali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert