Í Sýrlandi til að sýna samstöðu

Skjáskot/YouTube

Myndband sem sagt er vera af Hauki Hilmarssyni og tekið í Afrin í Sýrlandi í ár hefur verið birt á YouTube. Á myndbandinu segist hann vera á staðnum til að sýna samstöðu með byltingunni og til að berjast við hlið félaga sinna til að verja þann árangur sem þegar hafi náðst. 

Í tyrkneskum fjölmiðlum er því haldið fram að Haukur hafi fallið í árásum Tyrkja í Afrin. Þar hefur Tyrklandsher hafið stórsókn gegn sveitum Kúrda sem hafa farið með yfirráð á svæðinu. 

Íslensk yfirvöld eru að reyna að komast að því hvort að þessar fréttir eigi við rök að styðjast. Haukur er sonur Evu Hauksdóttur sem biðlaði til almennings á heimasíðu sinni í morgun  um að veita upplýsingar um ferðir Hauks síðasta árið.

Myndbandið er merkt IFB, International Freedom Battalion. IFB er útlendingahersveit sem m.a. hefur barist gegn vígamönnum Ríkis íslams í Raqqa í Sýrlandi. Í Facebook-færslu þeirra í gær kom fram að Haukur hefði verið liðsmaður þeirra og að hann hefði fallið þann 24. febrúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka