„Ég er rjúkandi reið“

Magnús Örn með Sigrúnu Örnu barnabarni sínu og dóttur Þórdísar.
Magnús Örn með Sigrúnu Örnu barnabarni sínu og dóttur Þórdísar. Ljósmynd/Aðsend

„Ég veit ekki með ykkur en ég er rjúkandi reið. Ekki bara fyrir pabba hönd heldur okkur hin sem búum á þessari eyju,“ segir Þórdís Gyða Magnúsdóttir, dóttir manns sem er langt leiddur af alzheimer og þarf að gangast undir svæfingu.

Magnús Örn Guðmundsson, faðir Þórdísar, þarf að komast til tannlæknis en það er ekki jafn einfalt fyrir hann og flesta aðra. Hún greindi frá stöðunni á Facebook-síðu sinni og uppfærslu hennar í heild sinni má sjá neðar í fréttinni.

Ekki hægt að framkvæma svæfingu í Eyjum

„Pabbi er aðeins með 6 tennur upp í sér eftir nokkuð margar tanntökur en nú er hann það langt genginn á sjúkdóminn að erfitt er að fara með hann til tannlæknis og láta fjarlægja restina, því þarf hann að fara í svæfingu og láta rífa tennurnar úr sér. Hér í Eyjum eru til svæfingargræjur en því miður ekkert verið notaðar síðustu misseri. Núna á þessari stundu er svæfingarlæknir á eyjunni sem við ætluðum að fá til að framkvæma svæfingu á karlinum en haldið þið ekki að svæfingargræjurnar eru bilaðar!“

„Mér finnst þetta bara svo mikið að bull að fara með hann alla þessa leið til Reykjavíkur til þess að rífa úr honum tennurnar þegar það eru til svæfingagræjur hérna uppi á spítala, sem virka ekki,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is.

Magnús ásamt eiginkonu sinni Sigrúnu Hjörleifsdóttur og barnabarni þeirra, eldri …
Magnús ásamt eiginkonu sinni Sigrúnu Hjörleifsdóttur og barnabarni þeirra, eldri dóttur Þórdísar, Önnu Rakel. Ljósmynd/Aðsend

Þarf alltaf aðila með sér

Hún segir það ekki auðvelt mál fyrir Magnús að skjótast til Reykjavíkur. „Pabbi minn er kominn í hjólastól, getur ekki gengið án þess að hafa 1-2 aðila með sér, talar lítið sem ekki neitt, borðar stundum sjálfur en fær yfirleitt hjálp, hann þarf hjálp til þess að komast á klósettið og er ofan á allt að drepast úr tannpínu sem er lítið hægt að gera í nema með tanntöku.“

Þórdís er ekki viss hvað það er sem stjórnar því hvenær fólk er sent með sjúkraflugi og hvenær þau þurfi að koma sér sjálf á áfangastað. Hann hafi áður verið sendur með sjúkraflugi. „Af hverju er það ekki hægt allt í einu? Hann þarf að fara í svæfingu, þetta er ekkert lítið mál þó þetta sé bara tanntaka,“ segir hún.

Þórdís Gyða og Magnús þegar hann var nýgreindur með Alzheimer.
Þórdís Gyða og Magnús þegar hann var nýgreindur með Alzheimer. Ljósmynd/Aðsend

Ný heilabilunardeild undirmönnuð

Magnús býr nú á nýrri heilabilunardeild á Hraunbúðum, dvalarheimili aldraðra, í Vestmannaeyjum. Töluvert var fjallað um mál Magnúsar og fjölskyldu í fjölmiðlum í október 2016 sökum úrræðaleysis í heilbrigðiskerfinu.

Þórdís Gyða segir dvölina á nýrri deild ganga ágætlega en það vanti þó fleira starfsfólk. „Inni á öllu heimilinu eru 38 manns en aðeins 5 starfsmenn sem sjá um allt þetta fólk, tveir inni á deildinni hans og þrír frammi á hjúkrunarheimilinu. Ef einn aðili inni á heilabilunardeildinni þarf hjálp og tveir starfsmenn þurfa að sinna þeim aðila þarf að kalla á annan starfsmann frá hinum ganginum” segir Þórdís en tekur fram það starfsfólk sem nú starfar þar sé frábært og alls ekkert við þau að sakast. Undirmönnunin sé vandamálið. 

Magnús á sjómannadeginum í fyrra.
Magnús á sjómannadeginum í fyrra. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert