Hefur heyrt átakanlegar sögur

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra á flokksþingi Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra á flokksþingi Framsóknarflokksins. mbl.is/Hari

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að um leið og hann tók við sem ráðherra sá hann að gera þarf  töluverðar breytingar í öllu er varðar börnin okkar.

„Tel ég það mikilvægasta málaflokk míns ráðuneytis, ef ekki bara heilt yfir, og mun ég leggja mig allan fram við það að gera þær breytingar sem þar þarf sannarlega að gera. Til marks um áhersluna sem ég legg á þann málaflokk má nefna að allir þeir sem óska eftir fundi með mér um málefni barna, hvort sem það eru einstaklingar, félagasamtök eða aðrir, fá umbeðinn fund. Ég hef fundað með foreldrum barna í miklum vanda, heyrt átakanlegar sögur, fundað með frjálsum félagasamtökum sem hafa að einhverju leyti tekið boltann þar sem ríkisvaldið hefur ekki haldið honum á lofti hvað varðar börnin okkar og fleira. Málaflokkurinn skilur eftir mikið svigrúm til bóta og hyggst ég halda áfram að leggja mikla áherslu á hann,“ segir Ásmundur Einar.

Barna- og unglingageðdeild Landspítala.
Barna- og unglingageðdeild Landspítala. mbl.is/Hari

Of mörg dæmi um að gripið sé seint inn

Hann segir að það standi til að fara í heildstæða endurskoðun á barnaverndarlögum og kerfinu sem byggt hefur verið upp kringum það.

„Ljóst má vera af umræðu í þjóðfélaginu að þar er pottur brotinn og hef ég sett á dagskrá að annars vegar bæta úr starfsemi kerfisins eins og það er nú til skemmri tíma sem og að bæta úr regluverki og umgjörð þess til lengri tíma. Það helsta sem útfæra þarf eru verkefni er snúa að snemmtækri íhlutun þegar kemur að börnum, þ.e. að sjá fyrir vandamál af hvaða toga sem þau geta verið og grípa inn í meðan þau eru enn jafnvel aðeins á byrjunarstigi eða í það minnsta meðhöndlanleg. Því miður sjáum við of mörg dæmi þess að gripið er inn í seint og stundum of seint. Þetta er stórt langtímaverkefni sem mun fara af stað á næstu vikum.

Annað stórt og mikið verkefni innan ráðuneytisins snýr að breytingum á regluverki er varðar einstaklinga með skerta starfsgetu. Við þurfum að bæta kjör örorkulífeyrisþega og það er hitt stóra verkefnið sem unnið verður að á næstu mánuðum. Fyrir dyrum standa breytingar á þeim málaflokki sem snýr að því að horfa á það frá öðru sjónarhorni en gert hefur verið hingað til. Nýgengi öryrkja er gífurlegt og einstaklingum sem falla inn í það kerfi fjölgar hlutfallslega mjög mikið ár frá ári. Sú þróun hefur verið vaxandi síðustu árin og tengist málefnum barna einnig að mínu mati, þar sem þeir einstaklingar sem koma nýir inn í það kerfi eru oft ungt fólk sem hefur verið í vanda sem börn. Nýtt kerfi á að miða að því að aðstoða fólk við að haldast á vinnumarkaði, hvort sem það yrði að fullu eða að hluta, það fer eftir aðstæðum hverju sinni, en það er ljóst að það er bæði gott fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið í heild sinni að fólk haldist eins mikið og hægt er í virkni. Tekið verður upp starfsgetumat þar sem hver einstaklingur er metinn með tilliti til þess hvað hann getur gert, en ekki með tilliti til þess hvað hann getur ekki gert,“ segir Ásmundur Einar.

Kjör aldraðra eru einnig til skoðunar um þessar mundir, að sögn Ásmundar, en skipaður verður starfshópur til að fara yfir kjör þeirra innan þess hóps sem verst eru settir og hvað þurfi að gera til þess að bæta stöðu þeirra.

„Innan þess hóps eru einstaklingar sem reiða sig einvörðungu á lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, þó sem betur fer sé það svo að flestir eldri borgarar búi við góðan kost.“

mbl.is/Styrmir Kári

Fæðingarorlof lengt í 12 mánuði og greiðslur hækkaðar

„Fæðingarorlof er atriði sem skiptir miklu máli, tengt vinnumarkaði beint sem og jafnréttismálum, sem er eitt af stærri málefnum sem ég hef umsjón með sem ráðherra jafnréttismála.

Á yfirstandandi kjörtímabili mun fæðingarorlof verða lengt í 12 mánuði sem og að greiðslur til foreldra meðan á fæðingarorlofi stendur verða hækkaðar. Þessi vinna er að fara af stað og verður m.a. horft til skýrslu sem skilað var árið 2016 þegar Eygló okkar Harðardóttir var ráðherra og Birkir Jón Jónsson veitti þessari vinnu forystu,“ segir Ásmundur Einar.

Hann segir jafnrétti kynjanna, sem og allra hópa almennt, mikilvægt atriði til að hlúa að. 

„Jafnrétti er þó alls ekki aðeins kynjajafnrétti. Mikilvægt er að ná fram jafnrétti milli allra hópa í íslensku samfélagi, mismunun verður að vera óheimil svo allir hafi jöfn tækifæri til þess að blómstra. Hef ég lagt fram tvö frumvörp sem varða bann við mismunun, annars vegar á vinnumarkaði og hins vegar í þjóðfélaginu almennt. Það er bann við mismunun í stjórnarskránni, en það hefur sýnt sig að það er þörf á því að skýra vel út við hvað er átt, hvernig er óheimilt að mismuna og í hvaða aðstæðum. Þau frumvörp sem ég hef lagt fram snúa m.a. að því að mismunun á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, kynvitundar og kyntjáningar er óheimil, ásamt fleiri atriðum.

Á síðustu vikum hefur komið til landsins flóttafólk frá stríðshrjáðum svæðum til að mynda frá Sýrlandi sem og að von er á fleirum innan skamms. Flóttafólkið hefur og mun setjast að í sveitarfélögum vítt og breitt um landið, hluti á Vestfjörðum, hluti á Austfjörðum og hluti í Mosfellsbæ,“ segir Ásmundur.

ljósmynd/norden.org

Notendastýrð persónuleg aðstoð, NPA, hefur nú komist í gagnið og er eitt meginmarkmið innan málaflokks fatlaðs fólks að innleiða viðeigandi ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks inn í íslenska löggjöf, endurskoða ýmis ákvæði er lúta að hlutverki og valdheimildum ráðuneytisins og að tryggja NPA í sessi.

„Á næstu árum munum við þurfa að halda áfram að þróa samstarf ríkis og sveitarfélaga í þessum málaflokki og ég hef sagt opinberlega að ég sjái ekki að fleiri málaflokkar (málefni aldraðra t.d.) verði fluttir til sveitarfélaga fyrr en við erum búin að ná fullum tökum á málefnum fatlaðra.

Í málaflokki húsnæðismála hefur verið lagt fram frumvarp um húsnæðissamvinnufélög og innan skamms verður lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um húsnæðismál. Breytingar hafa verið gerðar á starfsemi Íbúðalánasjóðs, húsnæðisbætur hafa færst til sjóðsins og ætlunin er að skerpa enn frekar á hlutverki hans í stefnumótun á áætlanagerð í húsnæðismálum. Í húsnæðismálum erum við að undirbúa aðgerðir sérstaklega fyrir landsbyggðina vegna þess að ljóst er að hún hefur setið eftir. Íbúðalánasjóður er að vinna að þessum tillögum og eru þeir nú að ferðast um landið, hitta sveitarstjórnir og jafnframt er verið að kortleggja hvað nágrannalönd okkar eru að gera í þessum málum,“ segir félags- og jafnréttismálaráðherra.

Frétt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert