Mamma er alls staðar

Valgerður Guðnadóttir.
Valgerður Guðnadóttir. Eggert Jóhannesson

Blaðamaður hefur alltaf vitað að Valgerður Guðnadóttir ætti óvenjulega sögu, án þess að hafa nákvæmlega á hreinu hver söguþráðurinn er.
Á unglingsárum varð hún fyrst á vegi mínum, sem vinkona vinkonu, litla Ísland eins og það gerist, og við höfum verið góðar kunningjakonur síðan. Án þess að á neinn gleðigjafa Íslands sé hallað þá myndi undirrituð velja Völu í úrtak ef það þyrfti að hópa saman hlýju og gefandi fólki og senda það í einhverja sérstaka för út að knúsa heiminn.

Ef einhverjum svelgist á þessum lýsingum á Völu þá er þetta bara svona, spyrjið hvern sem er sem hefur komist í kynni við Völu. Fólk hefur alla tíð, hvar sem hún kemur, sótt í hana, hún segist líka hafa fæðst glöð og kát og það hefur fleytt henni áfram í gegnum ýmsar þær fjörur sem verða á vegi okkar í lífinu.

En hvað hafði ég heyrt? Ég þekki vel til fólks sem bjó á Langholtsveginum þegar hún var að alast þar upp og gat aflað mér frekari upplýsinga áður en við hittumst. Þetta var samheldin stór fjölskylda, gestkvæmt heimili, „afskaplega gott fólk“ eins og einn íbúi orðaði það, þar sem Vala ólst upp við fremur kröpp kjör efnahagslega en andleg fátækt var víðs fjarri. Foreldrar hennar voru orðin vel fullorðin þegar hún kom í heiminn, yngst sjö systkina, en þau voru kölluð „Gáfuðu systkinin á Langholtsveginum.“ Það er einhver ævintýralegur blær yfir öllu saman.
Vala er búin að undirbúa sig fyrir viðtalið, mjög fagmannlegur viðmælandi sem hefur aðeins punktað niður. 

En þessi saga núna, hún ætlar að deila henni með lesendum enda segist hún sjálf alltaf vera þakklát þegar fólk vilji deila sínum sögum með henni. „En svo skulum við bara reyna að segja söguna án þess að þetta verði nokkurn tímann „aumingja ég“,“ segir Vala. „Það er svo innilega lítið ég,“ bætir hún við. Ég lít yfir punktana hennar og svo á hana.

Mamma þín er alls staðar í öllu, hún er enn nærri þótt það séu 10 ár síðan hún lést. Hún hefur greinilega verið þér afar hjartfólgin?
„Mamma er alls staðar, það er satt og sterkur áhrifavaldur í mínu lífi. Ég hef séð það síðar hvað það skiptir miklu máli að vera alinn upp við ástríki, þegar maður fer í gegnum alls konar í lífinu, og eiga góðar minningar.“


Andlegt ríkidæmi

Þegar Vala fæddist 1976 átti hún að heita Gabríella og vera kölluð Capri, eftir súkkulaðinu. Faðir hennar og systur þvertóku fyrir að mamma hennar fengi að koma þessari hugmynd í framkvæmd. Þá var móðir hennar, hin hálfnorska Kristín Sigmundsdóttir, að vestan í hina ættina, 44 ára gömul og faðir hennar, Guðni Baldur Ingimundarson, að vestan, fimmtugur. Íslenskar konur áttu börn mun yngri á þessum árum svo þá þótti þetta spes – eða eins og elstu systur hennar sögðu sem eru fæddar upp úr 1950: „Eruð þið enn að þessu?!“ og voru miður sín. Kristín móðir hennar eignaðist því sjö börn frá 1953-1976 en eitt barna sinna missti hún nokkurra daga gamalt vegna mistaka ljósmóður.
„Ég upplifði allt annan tíma og aðstæður hjá fjölskyldunni en til dæmis elstu systur mínar. Þegar þær alast upp er pabbi á fullu í vinnu, brjálað að gera en þegar ég fæðist er hann fremur illa farinn til líkamlegrar heilsu eftir bílslys og heilablóðfall. Mamma vann með heimilinu við ræstingar en pabbi var orðinn það illa farinn að þegar ég var um 10 ára þurfti hann alveg að hætta að vinna, orðinn öryrki. En alltaf sagði hann þegar hann var spurður hvernig honum liði: „Mér líður vel“. Æðrulausari manni hef ég aldrei kynnst.

Valgerður Guðnadóttir.
Valgerður Guðnadóttir. Eggert Jóhannesson

Það var því minni peningur á heimilinu en þó meiri festa í umhverfinu, foreldrarnir höfðu meiri tíma fyrir okkur börnin sem yngri vorum og mér var vel sinnt. 

Því þótt það væru mikil blankheit var aldrei þessi andlega fátækt, það voru alltaf fullar hillur af bókum, mikið talað við okkur og okkur sagt að við gætum allt.
Mamma var með sínar þrár, hún ætlaði alltaf að verða eitthvað allt annað en húsmóðir en festist í því hlutverki. Henni var ofarlega í huga að ég myndi fylgja mínum draumum eftir og tengingin milli okkar var svo sterk því hún var músíkmanneskjan, söng og spilaði á gítar, enn músíkalskari en ég og hefði getað náð mjög langt hefði hún fengið tækifæri. Hún þekkti allar óperurnar og gat víst sungið allar þessar aríur.“

Létu sig dreyma um Mallorca og gosbrunn

Á Langholtsvegi 96, í stóru fjölskylduhúsi, bjó fjölskyldan alla tíð frá því Vala fæddist. Föðurafi og -amma á efri hæðinni og síðar þegar þau fóru á hjúkrunarheimili flutti föðursystir Völu þangað. Elstu systurnar voru fluttar að heiman þegar Vala kom til skjalanna en þrjú systkini bjuggu enn heima.

Þegar þú talar um blankheit fjölskyldunnar, hvernig lýstu þau sér?
„Það var ekki til peningur fyrir neinu aukalega, við fórum til dæmis aldrei til útlanda. Maður hugsaði stundum; Guð, ef maður gæti farið til Mallorca og fyllt skápinn af tyggjói eins og fólk gerir. Heima hjá vinkonunum voru skápar með lykli sem enginn mátti fara í því þar var allt nammið frá Mallorca!“ Við tístum yfir þessari sönnu tíðarandalýsingu 9. áratugarins. 
„Við bróðir minn sváfum inni í herbergi hjá mömmu og pabba, og ég alveg þangað til að ég var 13 ára. Ég var í neðri koju og bróðir minn í efri koju og við töluðum um hvað við myndum gera ef við eignuðumst pening. Þá var það alltaf mjög fínt hús sem við sáum fyrir okkur en aðalatriðið var að það yrði gosbrunnur í garðinum, það var það flottasta. Hugsaðu þér, það gat ekki orðið fínna!
En það var alltaf til nóg að borða og farið í skemmtilegar útilegur um landið. Ég var alltaf voða fín en ég var ekki í nýjum fötum. Mamma keypti þau á flóamörkuðum, sem þykir nú frekar sjálfsagt að gera í dag. Sumir myndu segja að við hefðum verið fátæk en ég upplifði í sjálfu sér aldrei að ég væri hræðilega fátæk. Kannski var það líka bara að fólk barst minna á á þessum tíma. En ég man enn útlandalyktina þegar ég fór fyrst til útlanda 13 ára í sumarskóla með vinkonum mínum.“

Nágrannakonan borgaði ár í tónlistarskóla

Vala segir að hún sé svolítið forn í fasi, vinum hennar finnst hún gamaldags. Það hafi eflaust eitthvað að gera með að hún ólst upp í húsi með kynslóðum sem fæddar voru um 1900 á efri hæðinni og svo eldri foreldrum og systkinum. Það er eitthvert töfraraunsæi í þessari tilveru þeirra á Langholtsvegi, Isabel Allende, við Vala erum eiginlega sammála um að það þurfi að skrifa bók um fjölskylduna því sannarlega erum við bara að tæpa á stóru.
„Afi og pabbi byggðu húsið á Langholtsvegi. Pabbi byggði svo síðar annað hús handa fjölskyldunni við Ásenda en varð gjaldþrota þannig að hann endaði á að flytja í kjallarann til afa og ömmu, í húsið sem hann byggði með þeim og svo bjuggum við þar alla tíð. Húsið var mjög lifandi, það var gestkvæmt og alltaf mikið líf og fjör á heimilinu, fólki fannst gott að koma til okkar, maður fann það. Mamma spilaði á gítar og raddaði öll lög, oft slökktum við á sjónvarpinu og sungum saman, hún kynnti mig fyrir alls kyns tónlist.

Mamma var svona líka gestrisin, það var alltaf einhvern veginn pláss fyrir alla og allt dregið fram úr ísskápnum þótt lítið væri til. „Já, gerðu svo vel og sestu hérna,“ sagði hún og svo sat alls konar fólk í eldhúsinu. Mamma fór aldrei í manngreinarálit og mörgum hefði þótt þetta fólk sem dúkkaði upp sumt hvert frekar furðulegt.“

 Hún hefur greinilega verið útsjónarsöm? Gert þig að fínustu stelpunni með fötum af flóamörkuðum og fundið kræsingar þegar engum fannst neitt vera til?
„Já, mjög svo. En hún átti auðvitað líka sína drauga og hefur örugglega verið að kljást við þunglyndi á tímabilum sem hún hefði í dag getað fengið betri hjálp við. En hún, og þau bæði mamma og pabbi, höfðu þann eiginlega að vera jákvæð og húmorinn sem var svo ríkjandi fleytti öllum langt. Þetta er alltaf spurning um hvort glasið er hálffullt eða hálftómt.
Sjálf var ég svolítið skondin inni í þessum heimilisaðstæðum því mamma var mjög afslöppuð með drasl en ég var ótrúlega þrifgjörn frá mjög ungum aldri. Það voru föt úti um allt, mamma henti þeim í hrúgur og svo endaði hún á að breiða bara yfir fatahrúgurnar ef þurfti að gera þær snyrtilegri. Ég réð mjög illa við kaosið heima og man eftir mér, reiðri lítilli ræstingakonu, þrífandi öskubakkana 5 ára gömul eftir systur mínar.“

Það kom fljótt í ljós að þú varst hæfileikarík, en væntanlega litlir peningar fyrir dýru tónlistarnámi?
„Nei, það voru ekki til peningar til þess en í þarnæsta húsi við okkur bjó besta vinkona mín, Gunnlaug Þorvaldsdóttir, alltaf kölluð Gulla, og hennar fjölskylda varð mín önnur fjölskylda. Það var í raun mamma hennar, Anna Jónsdóttir, sem kom auga á ýmislegt sem mamma var alveg græn fyrir, og hún ákvað að borga fyrir mig einn vetur í tónlistarskóla þegar ég var sex ára. En græn og ekki græn, eins og mamma sagði við mig, það voru bara ekki til peningar og það er ekki fyrr en ég fór í kór Langholtskirkju, hjá Jóni Stefánssyni sem ég fékk einhverja menntun í tónlist. Þar þótti rödd mín svo kröftug að ég var fljótlega færð í eldri kórinn. Ég hlaut mitt tónlistarlega uppeldi hjá Jóni og svo líka Ólöfu Kolbrúnu sem ég átti eftir að fara í söngtíma til í fjögur ár.“

Varstu ekkert döpur yfir að geta ekki haldið áfram í tónlistarskólanum?
„Nei, í rauninni ekki. Kannski reyndi ég bara að horfa á þetta jákvæðum augum og horfa til þess að Gulla kvartaði yfir því að það væri of mikið að gera á fiðluæfingunum. Heima var endalaust sungið, ég söng í skólanum, hátt og snjallt í öllum leikritum og lék Rauðhettu sex ára gömul í skólaleikriti með svo miklum tilþrifum að ég grét alvöru tárum þegar amman lenti í maga úlfsins. Heima settum við fjölskyldan og vinkonurnar upp leikrit, saumuðum búninga og æfðum stíft. Maður fann sér bara tækifæri til að syngja í eigin litlu tilveru.

En af því að við erum að tala um óvenjulega fjölskyldu þá fannst mér allt mjög venjulegt, of venjulegt, því pabbi og mamma voru ekki skilin og ég átti engin hálfsystkini. Ég óskaði mér þess oft að ég ætti ævintýralegri fortíð, hefði verið ættleidd, væri frá Persíu, bara eitthvað. Og við vinkonurnar vorum með ofboðslega sterka ævintýraþrá. Við áttum það til að stelast út um miðja nótt, lékum okkur í húsagrunnum, fundum gömul bein sem voru augljóslega rollubein en töldum okkur trú um að þetta væri glæpavettvangur og mannabein. Af öllu þráðum við heitast að lenda í ævintýrum.“

Hvarf í óminni

Í viðtalinu talar Vala einnig um lífið í seinni tíð og tónlistina en Vala er nú á listamannalaunum í ár og næsta verkefni á dagskrá eru tónleikar í Salnum 16. mars þar sem hún syngur í fyrsta skipti lag eftir sjálfa sig. Einnig ræðir hún veikindi mömmu sinnar en meðan Vala var í menntaskóla var móðir hennar verið greind með Alzheimer en þegar Vala var um tvítugt voru einkennin orðin það alvarleg að móðir hennar var hætt að þekkja hana.


Rannsóknir hafa sýnt að það að vera aðstandandi þeirra sem þjást af Alzheimer sé með erfiðari hlutverkum, yfirleitt erfiðara en að vera aðstandandi sjúklinga með aðra sjúkdóma. Tengirðu við það?

„Já, ég get alveg trúað því en sennilega hefur þetta verið sérstaklega erfitt fyrir mig því ég var mjög ung þegar hún greindist, var unglingur, þó að skellurinn hafi ekki komið strax því framgangur sjúkdómsins var hægur í fyrstu. Þegar henni fór hins vegar að hraka gerðist það mjög skyndilega og hratt og smátt og smátt hvarf hún inn í þennan sjúkdóm en hennar tilfelli var með því versta sem hægt er að fá, með miklum ranghugmyndum.
Þegar ég var í London og talaði við hana í gegnum síma var hún mjög ósátt við sína stöðu. Móðir hennar hafði líka verið með Alzheimer og ég man eftir frá því ég var bráðung að hún sagði: „Bara hvað sem er annað, ég er til í að fá allt annað, en þennan sjúkdóm.““


Hver voru fyrstu einkennin?

„Þau einkenni sem ég tók fyrst eftir, en tengdi ekkert við sjúkdóminn, voru að hún fór að segja alls konar furðulegar sögur, af til dæmis samstarfsfólki sínu en þá starfaði hún á Kleppi. Svo fór hún allt í einu að gleyma hvernig átti að gera eitthvað sem hún kunni upp á hár og hún endurtók sig í sífellu. Ég man eftir mér sem pirruðum unglingi segja: „Æ, mamma þú varst að segja þetta.“
Ég geri mér grein fyrir að ég fór í afneitun og svo kom reiðin. Af hverju var hún með þetta bull og hvaða ranghugmyndir voru þetta í manneskjunni? Þegar maður gerði sér grein fyrir hvað var á seyði kom skömmin. Maður fór að reyna að fela ástandið, að hún væri ekki svona veik. Þegar ég útskrifaðist úr söngskólanum 22 ára var ég svo stressuð að mamma færi að gera einhverjar gloríur, segja eitthvað við fólk á lokatónleikunum að ég var að deyja.
Svo er það sorgin og það er allt sett á ís því manneskjan er ennþá lifandi en hún er samt algjörlega horfin. Þetta var sérstaklega erfitt fyrir pabba, að fylgjast svona með manneskjunni sem hann elskaði út af lífinu, hann var mjög ástfanginn af mömmu, veslast svona upp.“

Vala og móðir hennar, Kristín Sigmundsdóttir.
Vala og móðir hennar, Kristín Sigmundsdóttir.


Vala segist líklega aldrei hafa gert sér grein fyrir, fyrr en í seinni tíð, hvað þetta var erfitt.
„Ég hef eiginlega ekki getað talað um þetta, ég gat ekki talað um mömmu í mörg ár. Mér finnst mjög mikilvægt að þessi umræða er í dag komin á allt annan stað, þarna talaði ég aldrei við nein Alzheimer-samtök eða slíkt.
En þessi elska, þótt ég tali svona, þá hafði hún þessa eðlislægu gleði sína þó í einhvern tíma og það lifnaði yfir henni þegar hún heyrði tónlist. Ég hugsa stundum að ég vildi óska að maður hefði haft enn meiri tónlist fyrir henni því það var það síðasta sem fór – hún gat spilað á píanóið þegar hún var orðin mjög lasin. Ég er líka mjög þakklát fyrir að ég var ekki ein í þessu, við vorum mörg systkinin og gátum stutt hvert annað, það er ekkert smá dýrmætt.“

 Hvað heldurðu að líf þitt, að hafa ekki fengið allt upp í hendurnar og það sem þú hefur prófað hafi gefið þér, hvað nýtist þér í dag?

„Kannski er ég opnaði og umburðarlyndari fyrir allskonar, að alast upp á óvenjulegu heimili og vera í umhverfi þar sem er alls konar fólk. Ég finn oft þegar ég er að takast á við alls konar hlutverk hvað maður býr að dýrmætri reynslu í stað þess að hafa siglt mjög lygnan sjó í einhverju mjög ferköntuðu umhverfi þar sem allt var spikk og span. Dætur mínar segja stundum við mig: „Mamma, þú ert svo skrýtin.“ Ég segi þá: „Það er gott að vera skrýtinn. Kannski er maður svolítið dýnamískari karakter ef maður hefur upplifað alls konar aðstæður. Og kannski er maður betri listamaður.“

Viðtalið birtist í fullri lengd í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert