Snjóflygsur í tjaldinu í 54° frosti

Arnór Ingólfsson inni í tjaldi á Suðurskautinu.
Arnór Ingólfsson inni í tjaldi á Suðurskautinu. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru ekki alltaf jólin. Hlutirnir ganga ekki alltaf upp,“ segir Arnór Ingólfsson, starfsmaður Arctic Trucks, sem fór á Suðurskautið í síðasta mánuði ásamt Jóhannesi Guðmundssyni.

Þar reyndu þeir að gera við jeppa fyrirtækisins sem hafði bilað í janúar en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Tjald var sett yfir jeppann á meðan viðgerðin stóð yfir.
Tjald var sett yfir jeppann á meðan viðgerðin stóð yfir. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var mikið ævintýri. Þess vegna ákvað maður að slá til því þetta var öðruvísi ferð. Þetta átti að ganga upp fljótt og örugglega en það getur alltaf komið eitthvað upp á,“ bætir Arnór við. Hann var að fara í fjórða sinn á Suðurskautið og því margreyndur í aðstæðum sem þessum.

Rússneskt fyrirtæki sem annast flug til og frá Suðurskautslandinu notar jeppa frá Arctic Trucks í tengslum við eldsneytisbirgðastöð fyrir flugvélar sínar. Þegar átti að loka stöðinni um miðjan janúar og keyra heim, eins og þeir gera árlega, bilaði annar jeppinn og ekki náðist að flytja hann til baka. Því var ákveðið að efna til leiðangursins áður en vetur gengur í garð á Suðurskautslandinu af fullum krafti.

Viðgerð í fullum gangi.
Viðgerð í fullum gangi. Ljósmynd/Aðsend

Reyndu í tvo sólarhringa

Þegar Arnór og Jóhannes lögðu af stað í ferðina var talið að annað hvort hafi drifbúnaður jeppans bilað eða sjálfskiptingin. Einnig stóð til að lagfæra eldri jeppa sem hafði verið skilinn eftir á svæðinu.

Í ljós kom að klaki var í hráolíusíu nýja jeppans og telur Arnór líklegt að vatn hafi komist inn í háþrýstidælu fyrir spíssana. Frostið hafi verið mikið dagana á undan, allt að mínus 47 gráður, og líklegt að eitthvað hafi sprungið í dælunni.

Ljósmynd/Aðsend

Arnór og félagar reyndu hvað þeir gátu að gera við jeppann í tvo sólarhringa og meðal annars voru notaðar vatnsstöðvar til að hlaða inn á rafgeyma. „Við fengum hann í gang í 10 til 15 sekúndur þrisvar sinnum. Það var nokkuð ljóst að þessi bíll færi ekki í gang með þá varahluti sem við höfðum,“ segir hann.

Því var ekki annað hægt en að skilja báða jeppana eftir því ekki var í boði að fara á öðrum þeirra þessa 2.500 kílómetra leið til baka. Sú keyrsla hefði staðið yfir í fjóra daga. Öllum frostlegi var því tappað af nýja jeppanum og miðstöðvar-„elementum“ blásið út. Arnór hefur ekki trú á því að jeppinn skemmist í frostinu á Suðurskautinu í vetur.

Frosin gleraugu inni í tjaldinu eftir nóttina.
Frosin gleraugu inni í tjaldinu eftir nóttina. Ljósmynd/Aðsend

Snjóflygsur mynduðust í tjaldinu

Arnór og félagar gistu í fjórar nætur á Suðurskautinu á 83. breiddargráðu og þá síðustu var frostið mest, eða mínus 54 gráður. Hann segir að það hafi verið frekar ógnvekjandi að vera í tjaldinu þessa síðustu nótt en hinar tvær næturnar á undan var frostið mínus 47 gráður. Þá var tjaldið hélað að innan, svolítið hrímugt, sem mun ekki vera óeðlilegt við þessar aðstæður.

„En þegar þú ert kominn niður fyrir mínus 50 þá var eiginlega farið að snjóa í tjaldinu. Þar sem áður hafði myndast hrím mynduðust eiginlega snjóflygsur og svefnpokarnir okkar voru í snjó síðustu nóttina. Þá hugsaði maður með sér: „Þetta eru aðstæður sem maður vill ekki eyða fleiri nóttum í,“ greinir Arnór frá en þegar mest lætur fer niður niður í 70 gráðu frost á þessu svæði yfir háveturinn.

Aðspurður segir hann ekki hafa fundið fyrir kulda í svefnpokanum. Ullarteppi og dúnúlpa var ofan á pokanum auk þess sem þrjú lög af dýnum voru undir þeim.

Ljósmynd/Aðsend

Flugvélin ætlaði að snúa við

Þegar flugvél var á leiðinni að sækja Arnór og félaga ætlaði flugmaðurinn að snúa við í þrígang vegna þess að hann treysti ekki veðrinu. Rússinn í viðgerðarteyminu taldi hann af því með því að öskra á hann í símann að þeir ætluðu ekki að gista þarna aðra nótt. Arnór segir að veðrið á svæðinu hafi verið fínt og töluvert betra en flugmaðurinn hafði talið.

Mokað frá skúr við flugbrautina.
Mokað frá skúr við flugbrautina. Ljósmynd/Aðsend

Ef flugvélinni hefði verið snúið við hefðu þeir þurft að gista eina nótt í viðbót í tjaldi og keyra til baka á gamla bílnum, sem er án aftursæta, á suðurpólinn, vegabréfslausir um 700 kílómetra leið þar sem Bandaríkjamenn eru með stórar bækistöðvar. „Það hefði getað verið smá utanríkiskrísa að koma okkur í burtu,“ segir Arnór.

Hann bætir við að mikil léttir hafi verið að þurfa ekki að eyða annarri nótt á Suðurskautinu í þessum mikla kulda.

Jóhannes Guðmundsson.
Jóhannes Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Mikil dramatík

Lítill tími gafst til að fara í flugvélina eftir að hún var lent til að sækja þá. Flugmaðurinn slökkti aðeins á öðrum hreyflinum og lágmarkseldsneyti var tekið til að hafa hana sem léttasta. Þeir félagar þurftu að skilja megnið af varahlutunum eftir. „Það var mikil dramatík í þessu hjá honum,“ greinir Arnór frá og nefnir að flugvélin hafi ekki verið gerð fyrir meiri kulda en 47 gráðu frost sem var einmitt hitastigið þegar hún lenti.

„Þetta var allt á „nippinu“. Menn hafa ekkert verið að þvælast þarna á þessum árstíma,“ segir hann.

Arnór Ingólfsson.
Arnór Ingólfsson. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Guðjónsson, verkefnisstjóri suðurpólsverkefna hjá Arctic Trucks sagðist einmitt í viðtali við mbl.is í síðasta mánuði ekki vita til þess að neinn hafi farið inn á hásléttuna áður á þessum árstíma í erindagjörðum sem þessum.

Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er á ytri mörkum þess sem okkur finnst þægilegt að gera. Við trúum því að þetta sé ekki hættulegt en það þarf að fara gríðarlega varlega,“ sagði hann þegar þeir Arnór og Jóhannes voru komnir á Suðurskautið til að gera við jeppann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert