Umfangsmikil rannsókn á skipulögðum innbrotum

Þrír karlar voru handteknir í austurborginni á föstudag í þágu …
Þrír karlar voru handteknir í austurborginni á föstudag í þágu rannsóknarinnar og samdægurs úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald, eða til 16. mars, á grundvelli rannsóknarhagsmuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fjölda innbrota í umdæminu að undanförnu miðar vel. Framkvæmdar hafa verið húsleitir allvíða á höfuðborgarsvæðinu og lagt hefur verið hald á mikið af þýfi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan vinnur að því að hafa samband við þolendur innbrota svo hægt sé að koma hlutum í réttar hendur og hefur það gengið vel þó það sé tímafrekt. Lögregla telur víst að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða þegar áðurnefnd innbrot eru annars vegar.

Rannsóknin er viðamikil, en á þriggja mánaða tímabili frá desember til febrúar voru tæplega 130 innbrot í heimahús tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þar af um 50 í síðasta mánuði. Í mars hafa fimm innbrot í heimahús verið tilkynnt til lögreglu og því virðist sem hægt hafi á þessari þróun.

Ljóst er að verðmæti stolinna muna hleypur á milljónum en auk húsleita hefur lögreglan stöðvaði póstsendingar, sem voru á leið úr landi og innihéldu þýfi. 

Eins og fram hefur komið hafa flest innbrotanna átt það sameiginlegt að vera framin á daginn og að stolið sé skartgripum og peningum, en önnur verðmæti látin ósnert. Oftar en ekki virðast skartgripir og peningar á heimilum vera geymdir í svefnherbergjum og þangað hafa þjófarnir leitað.

Þrír karlar voru handteknir í austurborginni á föstudag í þágu rannsóknarinnar og samdægurs úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald, eða til 16. mars, á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Áður höfðu fjórir karlar verið handteknir vegna málsins og úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Einum þeirra hefur verið sleppt og annar er vistaður í úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda. Þeir sex, sem eru í haldi lögreglu í þágu rannsóknarinnar, eru allir erlendir ríkisborgarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert