Verði valinn með rafrænni kosningu

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðustól á landsfundi flokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðustól á landsfundi flokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tillaga hefur verið lögð fram til breytinga á skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins þess efnis að formaður flokksins verði ekki lengur kosinn á landsfundi líkt og verið hefur um áratuga skeið heldur í rafrænni kosningu þar sem allir skráðir flokksmenn hafi kosningarétt.

„Lagt er til að formaður verði kosinn beinni kosningu allra skráðra félagsmanna og skulu úrslit liggja fyrir að kvöldi þess dags er landsfundur er settur. Ræður frambjóðenda og kosning formanns skulu vera fyrstu mál á dagskrá fundarins og skulu úrslit liggja fyrir áður en gengið er til hefðbundinnar dagskrár,“ segir meðal annars í breytingatillögunni.

Fullgildum félagsmönnum flokksins skuli gert mögulegt að taka þátt í kosningunni með rafrænum hætti, en jafnframt skuli þeim sem mæta á landsfundinn gert kleyft að kjósa skriflega. Þeir flokksmenn sem fái kjörseðla á landsfundarstað skulu teknir af rafrænni kjörskrá um leið. Kosning varaformanns og ritara verði með sama hætti og áður.

Gert er ráð fyrir að kosning formanns verð fyrst í upptalningu á dagskrá landsfundar í skipulagsreglum flokksins. Á eftir henni komi ný grein þar sem fyrirkomulag kosningarinnar er nánar tilgreint. Þá verði kjörstjórn skipuð að minnsta kosti einum mánuði fyrir landsfund. Tillöguflytjendur eru Dagur Ágústsson, Ármann Elvarsson og Esther Sigurpálsdóttir.

Einnig er lagt til af Viðari Guðjohnsen að tekið verði upp flokksgjald innan Sjálfstæðisflokksins sem ákvarðað verði af landsfundi að fenginni tillögu miðstjórnar flokksins. Er lagt til að fyrstu árlegu flokksgjöldin verði 100 krónur en hafi flokksmaður greitt á sama ári félagsgjöld til flokksins eða styrki komi það til frádráttar flokksgjaldinu.

Þá er lagt til af Petreu Ingibjörgu Jónsdóttur „að fyrrverandi framkvæmdastjórar Sjálfstæðisflokksins tilheyri upptalningu á þeim aðilum sem sjálfkjörnir eru í flokksráð Sjálfstæðisflokksins. Þá er lagt til að það sama gildi um fyrrverandi starfsmenn flokksins, enda hafi þeir starfað fyrir flokkinn í samfleytt tíu ár eða lengur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert