Sótt hefur verið um fjárframlag úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til Grundarfjarðarbæjar til þess að gera nýtt bílastæði, aðstöðu og lagfæra og útbúa göngustíga við Kirkjufellsfoss í Grundarfirði.
Fossinn er rétt vestan við byggðarlagið og hefur á síðustu árum orðið mjög fjölsóttur og vinsæll staður meðal ferðamanna. Ræður þar að frá fossinum er í beinni sjónlínu að hinu formfagra Kirkjufelli og vinsælt að taka ljósmyndir af þessu tvennu saman.
Á góðum degi koma hundruð ferðamanna að fossinum og leggja þeir þá bílum sínum stórum og smáum annaðhvort á stæði sem eru orðin alltof lítil eða þá í kanti þjóðvegarins sem mikil umferð er um. Í umferðarteppum skapast hættuástand á þjóðveginum, segir Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri í Grundafirði, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.