Dæmdur fyrir smygl á Þjóðhátíð

Maðurinn var handtekinn í júlí árið 2016.
Maðurinn var handtekinn í júlí árið 2016. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi karlmann á þrítugsaldri í gær í tíu mánaða fangelsi, þar af sjö skilorðsbundna. Maðurinn er dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot en hann var handtekinn árið 2016 á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum með fíkniefni í ferðatösku.

Lögregluþjónar komu auga á manninn og bróður hans við almennt fíknieffnaeftirlit 29. júlí 2016. Við frumskýrslu hjá lögreglu viðurkenndi maðurinn að eiga tösku sem innihélt tæp 60 grömm af amfetamíni, 136 grömm af kókaíni og 181 MDMA töflu.

Sagðist hann hafa komið með efnin til Eyja gegn greiðslu og að það hefði verið heimska af hans hálfu. Hann hefði átt að fá 200 til 300 þúsund krónur fyrir verkefnið en hefði ekki enn fengið neitt greitt.

Þegar maðurinn var spurður hver væri móttakandi efnanna var svarið: „þú vilt ekki vera barinn til þess að fá að vita það.“

Maðurinn sagðist fyrir dómi skulda öðrum mönnum pening. Hann hafi óttast að þeir myndu gera fjölskyldu sinni mein og einnig hafi hann verið hræddur um heilsu sína. Aðal hvati hans á bak við flutning efnanna til Eyja hafi verið að hann og móðir hans yrðu ekki fyrir barsmíðum.

Bent er á í dómnum að við skýrslutöku hjá lögreglu hafi hinn dæmdi ekki lýst þvingunum eða hræðslu af neinu tagi. Maðurinn hefði snúið lífi sínu til betri vegar síðan brotið átti sér stað og því væri 10 mánaða dómur, þar af sjö skilorðsbundnir, talin hæfileg refsing.

Dómurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert