Í tjaldi með leðurblökum og pöddum

Solveig Sveinbjörndóttur hefur starfað í rúman áratug við hjálparstörf og …
Solveig Sveinbjörndóttur hefur starfað í rúman áratug við hjálparstörf og segist ekki geta setið aðgerðalaus þegar neyðin er svo mikil. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Eþíópía bíður Solveigar Sveinbjörnsdóttur handan við hornið; land með litríka menningararfleifð og fallegt mannlíf. Í dag býr fólk þar við hræðilegan raunveruleika þurrka og átaka og milljónir manna eru í neyð. Hjálparstarfsmenn leggja sitt af mörkum til að bjarga mannslífum og er Solveig ein af þeim. Blaðamaður nær að grípa hana í spjall nokkrum dögum fyrir brottför. 

Solveig segir sögur frá framandi löndum og ótrúlegum ævintýrum en þau eru óþrjótandi verkefni hjálparstarfsins. Óbærilegur hiti, skordýr, ónýtir vegir, drullusvað, sníkjudýr og hættulegar skotárásir eru vinnuaðstæður sem hún býr við oft á tíðum í vinnu sinni erlendis.

Solveig er hér umkringd fylgdarlausum börnum í Súdan árið 2008 …
Solveig er hér umkringd fylgdarlausum börnum í Súdan árið 2008 en þar vann hún á vegum Unicef. Börnin höfðu orðið viðskila við fjölskyldur sínar.

Milljónir í neyð

Í Eþíópíu kemur Solveig til með að vinna í sex mánuði að verkefnum sem tengjast barnavernd í suðausturhluta landsins, í Sómalí- og Orómía-héraði.
„Ástandið hefur lengi verið erfitt; þurrkar, flóð á einstaka svæðum og átök. Það eru miklir þurrkar núna og fyrirséð að það verður uppskerubrestur, fjórða árið í röð. Þannig að það hefur verið neyðarástand á þessu svæði til langs tíma en eftir 2016 hafa aðstæður fólksins versnað til muna, sérstaklega þar sem fólk er ekki eingöngu að reyna að lifa af sökum uppskerubrests, heldur lifir í ótta og óöryggi sem fylgir átökum sem blossa upp víða á landamærum héraðanna,“ segir Solveig.

Hún segir að rúm milljón manns hafi þurft að flýja heimili sín. „Það eru þeir sem urðu fyrir barðinu á átökunum en svo eru aðrar sjö milljónir sem metið er að þurfi neyðaraðstoð í formi matar og annarra lífsnauðsynlegra gagna, þar á meðal 3,5 milljónir barna.“ 

Bjó með kvikindunum í tjaldi

Hvernig var að búa í tjaldi í heilt ár í Súdan?

„Við sváfum í venjulegum tjöldum eins og þeim sem maður man eftir úr útilegum sem barn á 8. áratugnum. Þetta var svona týpískt grænt hermannatjald. Það var lítil girðing á milli flóttafólksins og okkar starfsmannatjalda og nálægðin því mikil,“ segir hún og rifjar upp þessa sérstæðu lífsreynslu.

„Á morgnanna vaknaði ég við sólarupprás við sóphljóð og seiðandi söng nágrannanna minna flóttafólksins en fyrstu verkefni dagsins þeirra voru að sópa saman þurri lausri moldinni af harðri jörðinni, safna spreki, kveikja undir hlóðum og hita vatn. Litlu börnin voru nývöknuð, berrössuð að skottast um. Ég fylgdist oft með þeim á meðan ég beið í sturturöðinni. Þetta voru þær fallegu stundir sem nærðu mann,“ segir hún.

„En svo var það annar raunveruleiki sem viðkom praktískri aðstöðu minni sem ekki vekur eins sælar minningar. Eins og þetta heimili mitt! Þegar rigndi þá lak tjaldið. Ég setti alltaf dótið mitt í annan beddann, en það voru tveir beddar í tjaldinu. Á regntímabilinu var allt rennandi blautt og kvikindin komu inn. Ég vaknaði við froskakvak undir rúminu og ef ég fór burt í nokkra daga var komið geitungabú þar inn. Svo voru alls kyns lirfur í alla vega litum eftir mánuðum. Stundum rauðar og svartar, stundum grænar og gular. Risastórar og í raun mjög fallegar. Ég fékk eitthvert sníkjudýr í magann frá menguðu vatni sem varð til þess að ég fékk enga næringu og missti mátt og mörg kíló. Ég var einnig óheppin að fá annars konar sníkjudýr eða pöddu í kálfann sem byrjaði að grafa sig inn hægt og rólega þannig að í lokin varð til stærðar hola inn að beini. Þá var mér kippt út til Khartoum, höfuðborgar Súdans, og ég sett beint á sýklalyf,“ segir Solveig og brosir á meðan blaðamaður gapir í forundran.

„Ég bjó líka í smátíma í moldarkofa en þar flugu inn leðurblökur á nóttunni. Ég nennti ekki að kippa mér upp við það. Enda lítið sem ég gat gert. Það var gat á þakinu og ekki forgangur að ganga í að laga það. Síðan voru það fljúgandi kakkalakkarnir sem sóttust í tölvubirtuna á kvöldin og festust í hárinu á mér þegar setið var utandyra við skýrsluskrif í lok dags. Það var ekkert annað að gera en að slá þá frá sér þar til maður gafst upp enda varð maður bara að venjast sumu.“

Skotárás á þyrluna

Hefurðu lenti í lífsháska?

„Já, í Súdan. Ég var ráðin af Unicef til þess að fara í uppbyggingarstarf á þessu svæði. Ég kom með þyrlu á staðinn því vegurinn var ekki öruggur vegna átaka. Ég fór beint til öryggisvarðarins til þess að fá upplýsingar um ástandið. Hann var þar í rólegheitunum með fætur uppi á borði og samtalið var mjög afslappað í upphafi. En allt í einu brutust út átök, og ég nýkomin á staðinn,“ segir Solveig sem hafði aðeins verið þarna í um tvær klukkustundir.

„Það höfðu verið einhver smáátök kvöldinu áður en í þessu mögnuðust átökin til muna. Þá var sett í gang neyðarbrottflutningur starfsfólks en það þurfti að koma öllum burtu af staðnum, meira að segja læknum án landamæra sem fara yfirleitt síðastir af vettvangi. Ég fór með fyrstu ferð í þyrlu ásamt öðrum konum en við nokkrar gerðum athugasemdir við þá forgangsröðun. Við vildum að hjálparstarfsmenn sem ættu ung börn hefðu forgang, óháð kyni. En við sáum svo að það gekk ekkert að malda í móinn enda allt fyrirfram ákveðið og því betra að hlýða. Það var talið öruggast að fara fyrstur úr aðstæðunum, en svo var það í raun ekki vegna glundroðans og hávaðans sem skapaðist þegar þyrlan hóf sig á loft. Við það magnaðist spenna sem varð til þess að skotið var á þyrluna en sem betur fer var botninn skotheldur. Þetta var súrrealískt ástand. Skothvellir bárust úr öllum áttum og fólk byrjaði að hlaupa og sumir skriðu í skjól á bak við bíla og vinnuvélar. Áður en ég fór í þyrluna, skreið ég á bak við stórt dekk á vinnuvél en svo var hrópað og mér bent á að ég væri við hliðina á olíutanki þannig að ég skreið eitthvað annað,“ segir Solveig.

Solveig lenti í skotárás þegar hún var í Súdan og …
Solveig lenti í skotárás þegar hún var í Súdan og þurfti að flýja undan kúlunun. Skotið var á þyrluna sem kom henni burt af svæðinu.

Að bjarga mannslífum 

Hvað fær þig til þess að vinna þetta starf?

„Að lina þjáningar. Það er það mikil þjáning í heiminum að ég vil leggja mitt af mörkum til þess að lina þær. Ég veit að þessi hjálp er að bjarga lífum. Ef maður getur komið í veg fyrir að ein manneskja deyi, á maður ekki að reyna að gera það? Líf er svo dýrmætt, maður getur ekki setið aðgerðarlaus. Ég er bara eitt lítið peð í þessu hjálparstarfi, ég er bara að reyna að búa til betri heim, eins væmið og það hljómar,“ segir Solveig og skammast sín ekkert fyrir væmnina, sem brýst fram í fleiri aðstæðum að hennar sögn.

Solveig er nú komin aftur til Eþíópíu að vinna fyrir …
Solveig er nú komin aftur til Eþíópíu að vinna fyrir Unicef á vegum utanríkisráðuneytisins.

„Ég sendi endalaus SMS til stuðnings Ara í söngvakeppninni og grét bara með honum,“ segir Solveig og hlær.

Það er liðið langt fram á eftirmiðdag og við sláum botninn í samtalið. Enda nóg að gera hjá Solveigu.

„Nú þarf ég að fara að pakka. Finna allan mögulegan búnað gegn móskítóflugunum, eins og moskítónet, sprey og spaða sem ég beiti grimmt og hef náð að þjálfa upp svakalega snerpu! Ef það er eitthvað sem gæti fengið mig til að hætta við þá eru það helvítis moskítóflugurnar. Þær virðast elska mig í tætlur í orðsins fyllstu merkingu!“

Viðtalið við Solveigu er í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert