Hafa ekki vanrækt þá lægst launuðu

Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, segist ekki sannfærður um að áhugi …
Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, segist ekki sannfærður um að áhugi sé á að hverfa aftur til þeirrar stöðu sem var fyrir tíma þjóðarsáttarinnar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Það er rangt að við höfum vanrækt þá sem lægstir eru,“ sagði Gylfi Arngrímsson, formaður ASÍ, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Ekki sé nóg að hækka lægstu laun og láta prósentuhlutinn sem aðrir fá fylgja því eftir.

Sagðist Gylfi lengi hafa talað fyrir því að verkalýðsfélögin þurfi að bíta frá sér. „En það hefur meira verið í samskiptum við stjórnvöld en atvinnulíf,“ sagði hann.

Ákveðin kynslóðaskipti séu hins vegar nú að verða í verkalýðsbaráttunni og því sé full ástæða til að fara yfir þjóðarsáttina frá 1990 og þann grunn sem hún hafi lagt að núverandi verkalýðsbaráttu. „Til að fara yfir hvor leiðin hafi verið að skila sér,“ sagði Gylfi og rifjaði upp að tekist hefði að hækka laun um meira en 1.000% á árunum á milli  1980-1990.

„Það var hins vegar niðurstaða þeirra sem þá voru í forsvari að það skilaði sér ekki alltaf til félagsmanna að leggja áhersluna á launahækkanir. Ég er ekki viss um að það sé eftirspurn eftir að fara aftur í það ástand.“

„Virðist hverfast um mína persónu“

„Ef að félagsmenn ASÍ eru hins vegar almennt þeirrar skoðunar að eldri aðferðarfræðin virki betur, að þá getur verið að það þurfi að fylgja henni eftir.“

Mikilvægt að sé hins vegar að hreyfingin taki umræðu um þær leiðir sem hún vilji fara í verkalýðsbaráttunni.

Gylfi hefur sætt töluverðri gagnrýni undanfarið, ekki hvað síst af hálfu nýrra formanna VR og Eflingar. Kvaðst Gylfi þurfa að taka afstöðu til þess. „Það er mikil spurning hvort að ég fari áfram,“ sagði hann. „Þetta virðist hverfast um mína persónu,“ bætir hann við.

Það sé hins vegar hreyfingarinnar að ákveða sína stefnu og að velja sér forystumann til að fylgja henni eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert