Hamfaragos í Eldgjá ýtti undir kristnitöku

Fagrifoss í Eldgjá.
Fagrifoss í Eldgjá. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Gos í Eldgjá skömmu eftir landnám ýtti undir trúskiptin hér á landi. Þetta er niðurstaða teymis vísindamanna í rannsókn sem leidd var af Cambridge-háskóla. Niðurstöðurnar eru birtar í vísindatímaritinu Climatic Change. Hún var fengin bæði með rannsóknum á gjóskulögum, ískjörnum og árhringjum trjáa sem og túlkun á Völuspá.

Gosið í Eldgjá er samkvæmt rannsókninni vorið 939, um sex áratugum eftir landnám Íslands. Um gríðarlegt hraungos var að ræða og stóð það til að minnsta kosti haustsins árið eftir.

Í vísindagreininni segir að ekki hafi fyrr tekist að tímasetja gosið með þessari nákvæmni. Vísindamennirnir notuðu m.a. ískjarna frá Grænlandi til verksins. Clive Oppenheimer, aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir að fyrstu landnámsmennirnir og önnur kynslóð þeirra hafi upplifað þennan tíma. 

Áhrif þessa goss urðu gríðarleg og féll gosaska um alla Evrópu. Í þýskum, írskum og ítölskum heimildum er talað um blóðrauða sól á þessum tíma. Þá varð gosið til þess að hitastig á norðurhveli lækkaði og eitt kaldasta sumar síðustu 1500 ára fór í hönd. Mest kólnaði í Skandinavíu, Mið-Evrópu, í Klettafjöllunum í Kanada, í Alaska og Mið-Asíu. Talið er að hitastigið sumarið 940 hafi verið um 2 gráðum undir meðallagi af þessum sökum.

Vísindamennirnir vildu einnig sjá hvaða áhrif eldgosið hafði á samfélag manna. Þeir segja að þjáningar sem því fylgdu hafi verið miklar allt frá Evrópu til Norður-Kína. Gripir hafi fallið og þó að hungursneyð hafi ekki orðið alls staðar varð hennar vart í Þýskalandi, Írak og Kína.

Vísindamennirnir segja að í Völuspá, sem heimildir benda til að hafi verið ort árið 961, megi finna vísbendingar um áhrif gossins á Íslandi. Í henni megi finna lýsingar á miklu eldgosi. Í Völuspá er dreginn upp hamfarakenndur spádómur um endalok heiðinna goða og telja vísindamennirnir að tilgangurinn hafi verið sá að nota eldgosið til að ýta undir trúskipti sem urðu svo á síðustu árum tíundu aldarinnar er hér var tekin um kristin trú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert