Helmingur næringarfullyrðinga fyllti ekki kröfur

mbl.is/Sverrir

Helmingur næringar- og heilsufullyrðinga á matvörum og fæðubótarefnum uppfyllti ekki kröfur. Þetta kemur fram í rannsókn Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga á þessum vörum frá maí 2016 til febrúar 2017.

Rannsakaðar voru 40 mismunandi matvörur og fæðubótarefni frá 18 fyrirtækjum, með samtals 66 fullyrðingum. Skoðaðar voru bæði innlendar og innfluttar vörur, almenn matvæli og fæðubótarefni eða sérvörur. Einnig voru skoðaðar auglýsingar í dagblöðum og upplýsingar í netverslunum. Fyrirtækin voru ýmist undir eftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga eða Matvælastofnunar. Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar

Niðurstöður voru þær að af 66 fullyrðingum voru 31 í lagi (47%) en 35 voru ekki í lagi (53%). Fæðubótarefni skáru sig nokkuð úr hvað varðar fjölda af óleyfilegum fullyrðingum. Þar voru 16 af 19 fullyrðingum óleyfilegar eða 84%. Ef teknar eru saman niðurstöður fyrir alla flokka án fæðubótarefna var útkoman sú að af 47 fullyrðingum voru 28 (60%) í lagi en 19 (40%) ekki í lagi. 

„Þó er ljóst að matvælaframleiðendur og innflytjendur þurfa að bæta sitt verklag við notkun næringar- og heilsufullyrðinga til að matvörur þeirra uppfylli reglur. Vanmerktar vörur kalla á aukið eftirlit með auknum eftirlitsgjöldum hjá þeim fyrirtækjum sem uppfylla ekki reglur um merkingar matvæla.“ Segir í tilkynningu. 

Vörurnar hafa ýmist þegar verið endurmerktar eða verða það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert