Gagnagrunnurinn geri deilur óþarfar

Eiríkur Hreinn Helgason, Runólfur Ólafsson, Steinþór Jónsson og Ólafur Guðmundsson …
Eiríkur Hreinn Helgason, Runólfur Ólafsson, Steinþór Jónsson og Ólafur Guðmundsson hafa unnið að þessu verkefni lengi. Ljósmynd/Aðsend

Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu sagði það hafa verið mjög áhugavert að sjá uppskeru margra ára strits er virkni gagnagrunns EuroRAP um íslenska þjóðvegakerfið var kynnt á fundi Félags íslenskra bifreiðaeigenda í Hörpu í morgun. Hann þakkaði FÍB fyrir að hafa skapað þetta opna samtal um samgönguöryggi, sem væri öllum mjög hagfellt.

FÍB vann að kortlagningu vegakerfisins frá 2012 til 2017, en gagnagrunnurinn er nú opinn öllum. Kom það fram í máli James Bradford, umferðarverkfræðings og þróunarstjóra EuroRAP að Ísland væri fyrsta landið til þess að kortleggja nær allt vegakerfi sitt með þessum hætti.

„Það er hægt að fara inn á vefinn og skrá sig sem notanda og skoða hvað Ísland er að bjóða upp á í heild. Svo getur þú borið vegi í þinni heimabyggð saman við vegi annarsstaðar og metið hvernig umhverfi þitt er gagnvart öryggi og síðan gert kröfur til stjórnmálamanna um hvað þarf að gera og af hverju þarf að gera það,“ segir Steinþór Jónsson, formaður FÍB.

Hann segir stjórnmálamenn jafnframt geta notað gagnagrunninn til að sýna fram á að verið sé að nota framkvæmdafé til gatnagerðar á hagkvæman máta. Almenningur hafi sömuleiðis gott tæki til að geta sýnt fram á það með rökum hvaða vegaframkvæmdir eigi að ráðast í.

„Það ætti í rauninni ekki að vera ágreiningur um það hvaða framkvæmd ætti að fara fyrst í í dag á Íslandi. Þetta er ekki lengur kjördæmapot, þetta er spurningin um heildarhagsmuni Íslendinga,“ segir Steinþór, sem var einn þeirra sem börðust hart fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar.

Vegir sunnanlands skora að jafnaði hærra en vegir fyrir vestan, …
Vegir sunnanlands skora að jafnaði hærra en vegir fyrir vestan, norðan og austan. Kort/Gagnagrunnur EuroRAP

Hann segir það verkefni sýna hversu miklu máli fjárfestingar í umferðaröryggi geti skipt. „Við skulum átta okkur á því að það hefur ekki orðið banaslys á tvöfaldri Reykjanesbraut í fjórtán ár. Það er bara mjög stórt og kannski langbesta dæmið um hvað framkvæmdir geta skilað til baka í bættu öryggi,“ segir Steinþór.

Íslenskir vegir koma illa út úr stjörnugjöf öryggismatsins, en rúm 40% vegakerfisins fá einungis eina stjörnu og einungis fjórðungur nær þremur stjörnum, en sú einkunn þykir ásættanleg. Reynsla systursamtaka EuroRAP í Ástralíu, AusRAP, er að fyrir hverja auka stjörnu samkvæmt öryggismatinu, lækkar kostnaður vegna alvarlegra slysa að jafnaði um helming miðað við ekna vegalengd, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Kostnaður vegna slysa á hverja 1000 ekna kílómetra helmingast í …
Kostnaður vegna slysa á hverja 1000 ekna kílómetra helmingast í Ástralíu við hverja auka stjörnu. Graf/AusRAP

Gæti líka nýst við að meta framkvæmdir í borginni

Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins sótti fundinn og spurði James Bradford að því hvort hægt væri að nota þetta sama kerfi til þess að meta kostnað við að bæta umferðaröryggi á borgarsvæðum, þar sem flest hættulegustu gatnamót landsins væru.

Hljómaði hann áhugasamur um að Reykjavíkurborg myndi nýta sér búnaðinn, en einungis nokkrar af helstu stofnæðum höfuðborgarsvæðisins eru inni í gagnagrunninum sem kynntur var í dag.

Svar breska sérfræðingsins var á þá leið að hægt væri að nota tólin til að meta kostnað og hagkvæmni framkvæmda á borgarsvæðum, en áhugavert væri að oftast væru þær framkvæmdir sem hagkvæmt væri að fara í innan borga mannvirki fyrir gangandi vegfarendur, fremur en uppfærslur á gatnamótum fyrir akandi.

„Það eru venjulega þeir sem eru í hættu á borgarsvæðum, svo það væru hlutir eins og að gera mun betri gangbrautir og setja gangstéttir þar sem það er hægt,“ sagði Bradford og bætti því við að oft væri hámarkshraði ökutækja lækkaður samfara þessum aðgerðum.

Hér að neðan má horfa á kynninguna á gagnagrunninum í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert