Veita aðgang að samræmdum prófum

Samræmd próf 4. og 7. bekkjar í íslensku og stærðfræði …
Samræmd próf 4. og 7. bekkjar í íslensku og stærðfræði sem lögð voru fyrir árin 2016 og 2017 munu verða gerða opinber á næstu dögum. mbl.is/Eyþór Árnason

Menntamálastofnun mun á næstu dögum veita aðgang að samræmdum könnunarprófum í 4. og 7. bekk, en um er að ræða próf í íslensku og stærðfræði sem lögð voru fyrir haustin 2016 og 2017. Þetta kemur fram í frétt á vef Menntamálastofnunar, en greint var frá því á mbl.is í gærkvöldi að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði í síðustu viku ákvarðað að faðir stúlku sem þreytti samræmd könnunarpróf í september 2016 ætti rétt á að fá úrlausnir stúlkunnar í íslensku og stærðfræði, ásamt fyrirgjöf fyrir hverja spurningu.

Í frétt Menntamálastofnunar segir að nemendur hafi áður haft aðgang að niðurstöðum sínum og svokölluðum sýnisprófum sem eru próf með sambærilegum spurningum. Nú munu nemendur og aðrir fá aðgang að þeim spurningum sem voru notaðar í prófinu sjálfu.

Menntamálastofnun hafði áður synjað um aðgang að prófspurningum þar sem til stóð að þróa einstaklingsmiðuð próf, sem byggja á stórum banka af prófspurningum. Segir stofnunin að ekki sé hægt að þróa slík próf ef semja þurfi ný prófatriði fyrir hverja fyrirlögn.

„Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á að tilfelli sem þessi falli undir undanþáguheimildir upplýsingalaga og því er Menntamálastofnun gert að afhenda umrædd próf,“ segir á vef stofnunarinnar.

Hefur ekki áhrif á próf 9. bekkjar

Mennta- og menningamálaráðuneytið mun á næstunni skipa starfshóp sem ætlað er að gera tillögu um framtíðarstefnu um samræmd könnunarpróf og mun sá hópur „væntanlega fjalla um fyrirkomulag einstaklingsmiðaðra prófa,“ að því er segir á vef Menntamálastofnunar, þar sem jafnframt kemur fram að ákvörðunin úrskurðarnefndarinnar hafi engin áhrif á samræmd könnunarpróf í 9. bekk, sem verða endurtekin í vor og haust.

„Fyrirlögn þeirra prófa mun standa fram til haustsins 2018 og ekki er unnt að opna þau próf fyrr en fyrirlögn er lokið,“ segir á vef stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert