Mosfellsbær þarf að greiða yfir 20 milljónir

Mosfellsbær þarf að greiða rúmar 20.000.000 til Spennt ehf.
Mosfellsbær þarf að greiða rúmar 20.000.000 til Spennt ehf. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag Mosfellsbæ til þess að greiða Spennt ehf 20.099.106 krónur með dráttarvöxtum. Þá þarf Mosfellsbær að greiða 2.500.000 krónur í málskostnað.

Í dómnum kemur fram að Spennt ehf eigi samtals kröfur að fjárhæð 51.978.424 krónur. Mosfellsbær eigi hins vegar gagnkröfur til skuldajafnaðar að fjárhæð 31.879.318 krónur og beri því að greiða 20.099.106 krónur vegna málsins. 

Málsatvik eru þau að Mosfellsbær stóð fyrir útboði vegna byggingar íþróttahúss að Varmá þar sem verktaki átti að leggja til hönnun verks sem og framkvæmd. Tilboð bárust frá átta aðilum og var Spennt ehf einn af þeim en öllum tilboðum var hafnað. Í kjölfarið fóru fram samningskaup þar sem Mosfellsbær gerði verksamning við Spennt ehf.

Í dómi héraðsdóms Reykjaness segir að ágreiningurinn snúist um það í hvaða ástandi Spennt ehf átti að skila íþróttahúsinu og kröfu hans um ýmis auka- eða viðbótarverk við samningsverkið. Einnig er ágreiningur um kröfu Spennt ehf vegna millibyggingar sem upphaflega var ekki gert ráð fyrir.  

Þá var deilt um það hvort Mosfellsbær eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar þar sem verkið hafi verið ófullgert og haldið göllum.

Dóminn í heild má sjá hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert