Vilja hjólaleið milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar

Pawel Bartoszek, varaþingmaður Viðreisnar.
Pawel Bartoszek, varaþingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert

Fjórtán þingmenn hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi þess efnis að Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, verði falið að skipa starfshóp um gerð fýsilegrar hjólaleiðar milli Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Starfshópurinn skili af sér áfangaskiptri og kostnaðargreindri tillögu fyrir 1. janúar 2019. 

Flutningsmenn telja þó ekki æskilegt að leggja slíka hjólaleið meðfram Reykjanesbrautinni í ljósi alþjóðlegra viðmiða um hönnun slíkra leiða vegna umferðarþunga og umferðarhraða um hana. Svo ekki sé talað um ef umferðarhraðinni yrði aukinn frekar.

Vísað er í lokaritgerð Eiríks Ástvalds Magnússonar í greinargerð þingsályktunartillögunnar þar sem lagt er til að farið verði eftir gamla Keflavíkurveginum og Vatnsleysustrandarvegi. Malbik verði lagt á þá hluta leiðarinnar sem í dag séu malarvegir, nýir stígar lagðir á stöku stað þar sem það sé nauðsynlegt og leiðin merkt með vegvísum og -merkingum.

Þessi útgáfa myndi kosta rúmar 327 milljónir króna miðað við verðlag ársins 2014. Fyrsti flutningsmaður er Pawel Bartoszek, varaþingmaður Viðreisnar en meðflutningsmenn koma auk Viðreisn frá Samfylkingunni, Miðflokknum, Pírötum, Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert