Vissu ekki að um sakamál væri að ræða

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. mbl.is/Golli

Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ segjast ekki hafa haft upplýsingar um að mál dagmóður  sem var dæmd fyrir líkamsárás gegn tæplega tveggja ára barni væri rannsakað sem sakamál fyrr en nokkrum mánuðum eftir að það kom upp.

Fram að því héldu þau að málið væri rannsakað sem slys.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Ákveðið var að draga starfsleyfi konunnar ekki til baka vegna þess að það var að renna út. Konan hætti störfum í apríl 2017.

Að sögn Haraldar Sverrissonar, bæjarstjóra Mosfellsbæjar, var sama dag og bærinn vissi að málið væri rannsakað sem sakamál haft samband við foreldra símleiðis og þeim tilkynnt um hvað var í gangi. Einnig var haft samband við dagmóðurina og hætti hún starfsemi nokkrum dögum síðar.

Réttargæslumaður barnsins sagði í hádegisfréttum RÚV að bæjaryfirvöld hefðu ekki brugðist við með viðeigandi hætti, til dæmis með því að afturkalla ekki leyfi hennar.

Haraldur vísar því á bug. „Starfsleyfi hennar rann út þarna á sama tíma en það hefði verið gert ef svoleiðis hefði ekki háttað til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert