Boltinn virkaði eins og stækkunargler

Stækkunaráhrif frá vökvanum í boltanum voru nærri því búin að …
Stækkunaráhrif frá vökvanum í boltanum voru nærri því búin að kveikja í sófanum. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta virkar eins og stækkunargler. Það eru þessi speglunaráhrif sem verða af því að vökvinn sem er inni í boltanum virkar eins og stækkunargler, segir Herdís Storgaard, forvarnafulltrúi Sjóvár.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að litlu hefði mátti muna að illa færi á heim­ili Sól­veig­ar Láru Kjærnested fyr­ir stuttu þegar lít­ill leik­fanga­bolti í sam­starfi við sól­ina kveikti næst­um því í sóf­an­um í stof­unni.

Herdís segist muna eftir dæmi frá því fyrir mörgum árum þegar glas var skilið eftir í sófa á heimili þar sem ekki var dregið fyrir. „Þá sviðnaði sófinn, en það náðist ekki upp eldur. Það var væntanlega af því að sófinn var frá Bretlandi og húsgögn í Bretlandi eru meðhöndluð með efni sem gerir það að verkum að það kviknar ekki í.“ Hún bætir við að efnið sem hafi þessi áhrif sé hins vegar eitrað og því ekki endilega æskilegt.

Verr hefði getað farið hjá fjölskyldu Sólveigar Láru. „Ég tala nú ekki um, ef þetta hefði verið nálægt einhverju sem kviknað hefði í,“ segir Herdís og kveðst vonast til að saga hennar veki fólk til meðvitundar um þessa hluti.

„Fólk þarf líka að hugsa um þetta í bílum, því þar er oft ennþá meiri sól og hiti og þetta getur líka gerst þar.“

Hún bendir á að ágætis leið til að kanna hvort stækkunaráhrifin séu fyrir hendi til að mynda varðandi vatnsflöskur og annað því um líkt sem stundum verði eftir úti í bíl, sé að renna ílátinu með vökvanum í yfir skrifaðan texta og sjá hvort hann stækki. „Ef það gerist þá eru þessi stækkunaráhrif fyrir hendi.“

Herdís segist einnig vita til þess að kviknað hafi í út frá bréfapressum úr gleri. „Það getur kviknað í út frá þykkum, litríkum glermunum og þess vegna þarf til að mynda að passa glermuni í glugga. Gler er mjög mismunandi og þykkt gler getur haft þessi sömu áhrif.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert