Hættur leynast í lokuðum rýmum á háhitasvæði

Starfsmenn verða að þekkja hættur sem geta myndast í lokuðum …
Starfsmenn verða að þekkja hættur sem geta myndast í lokuðum rýmum á háhitasvæðum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það þarf að minna fólk á hætturnar sem felast í því að vinna í lokuðum rýmum á háhitasvæði. Það eru mörg svæði á landinu sem ferðamenn skoða og allir þurfa að vera meðvitaðir um mögulegar hættur,“ segir Kristinn Tómasson sviðsstjóri Vinnueftirlitsins.  

Vinnueftirlitið sendi dreifibréf til starfsfólk ferðaþjónustunnar og annarra sem ferðast á slíkum stöðum til að benda fólki á þær hættur sem felast í því að starfa þar sem möguleiki er á hættulegri loftmengun. 

„Það hafa orðið mörg slys þar sem fólk hefur misst meðvitund vegna hættulegra lofttegunda en í langflestum tilvikum sleppur það,“ segir Kristinn. Hann segir brýnt að allir sem starfa í ferðaþjónustunni, leiðsögumenn sem og ferðamenn séu meðvitaðir. 

Á síðustu árum hefur ferðaþjónustan vaxið hratt og ferðamenn eru taldir í milljónum. Kristinn bendir á að í því ljósi sé brýnt að allir séu meðvitaðir um hætturnar sem ber að varast. 

Lykilatriði er að allir starfsmenn þekki áhættumatið, viðbragðsáætlanir og noti viðeigandi persónuhlífar ef öðrum verndaraðgerðum verður ekki við komið. Einnig er fyrirtækjum bent á að fylgjast með og fara eftir upplýsingum almannavarna við gerð áhættumats og viðbragðsáætlana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert