Urðum fljótt að taka miðann niður

Reglugerð heilbrigðiseftirlitsins um gæludýr á veitingastöðum hefur valdið mörgum dýravininum …
Reglugerð heilbrigðiseftirlitsins um gæludýr á veitingastöðum hefur valdið mörgum dýravininum vonbrigðum. Mynd úr safni. AFP

„Við vorum svo vitlaus að við settum miða í gluggann þegar reglugerðin fór í gegn og sögðum: Hundar velkomnir! Við þurftum hins vegar fljótt að taka þann miða niður,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, eigandi kaffihússins Iðu. Sömu sögu er að segja af kaffihúsinu Gráa kettinum, þar sem einnig var sett upp skilti í glugga og hundar boðnir velkomnir. 

Eitt af síðustu embættisverkum Bjartar Ólafsdóttur í embætti umhverfisráðherra var að leyfa dýrahald á kaffihúsum. Kaffihúsum í Reykjavík virðist hins vegar illmögulegt að uppfylla skilyrði heilbrigðiseftirlits borgarinnar fyrir að leyfa gæludýr að því er mbl.is hefur eftir eigendum og rekstraraðilum nokkurra veitingastaða sem höfðu áhuga á að leyfa dýr á sínum stöðum.

Mbl.is sendi í vikunni fyrirspurn á heilbrigðiseftirlitið um hversu margir veitingastaðir og kaffihús hefðu tilkynnt að gæludýr væru leyfð þar. Í svörum heilbrigðiseftirlitsins segir að einn rekstraraðili hafi tilkynnti að hann hygðist heimila hunda inni á veitingastað. Sá hafi síðan dregið tilkynninguna til baka og vísaði til þess að geta ekki uppfyllt skilyrðin.

Nokkrir hafi hins vegar leitað upplýsinga um reglugerðina, en þar segir m.a. að tryggja skuli að hundar og kettir séu einungis í veitingasölum veitingastaðar og ekki þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd. Þá sé heilbrigðisnefnd heimilt að setja ítarlegri skilyrði í starfsleyfi staðanna.  

Heilbrigðiseftirlitið kveðst þá ekki hafa orðið var við mikinn áhuga hjá veitingahúsaeigendum á málinu.

Enginn staður á Íslandi uppfyllir þessar kröfur

Björn Hauksson, eigandi Kaffi Laugalækjar, tilkynnti heilbrigðiseftirlitinu þá fyrirætlan sína að leyfa hunda á kaffihúsinu. „Ég held að vilji ráðuneytisins og útfærslan hjá embættismönnum fari bara ekki saman,“ segir hann. Eftir tilkynninguna hafi hann fljótt fengið símtal frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar. „Þar voru reglurnar útskýrðar og í rauninni var þetta ekki framkvæmanlegt. Sá sem ég ræddi við sagði að ekki megi bera fram mat og drykk í sama rými og gæludýrin eru í,“ bætir Björn við.

Í reglugerð heilbrigðiseftirlitsins segir að tryggja skuli að hundar og …
Í reglugerð heilbrigðiseftirlitsins segir að tryggja skuli að hundar og kettir séu ekki á þeim rýmum veitingastaða þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

„Þessi maður sagði mér að það mætti ekki framreiða mat og drykk í sama rými og eins og hann útskýrði þetta fyrir mér þá mætti ekki heldur finna til kökur eða búa til kaffi og te í sama rými. Þá hugsaði ég með mér að það væri enginn staður á Íslandi sem uppfyllir þetta.“

Björn bendir á að flestir staðir á Íslandi séu með opinn bar og kökurnar frammi. „Þannig að ég sagði honum þá bara að ég myndi draga mig í hlé með þetta núna og við erum því bara að bíða og sjá. Við myndum hins vegar vilja leyfa hunda og það var ætlunin hjá okkur.“ 

Forsvarsmenn Iðu töldu líka að þeim yrði auðvelt að leyfa hunda á kaffihúsinu án þess að þeir yllu öðrum gestum ónæði. „Við ætluðum að breyta rýminu þannig að fólk með hunda gæti verið öðru megin og þeir sem væru minna fyrir dýr gætu setið hinum megin,“ segir Arndís. Það hafi þó ekki verið nóg, kaffið og meðlæti á borð við ristað brauð hefði eftir sem áður þurft að vera lagað í öðru rými sem dýrin kæmu ekki inn í.

Í svörum frá heilbrigðiseftirlitinu segir að miðað við þá reglugerð sem eftirlitinu sé í dag gert að fylgja felist lausnin fyrir flest kaffihús því væntanlega í því að setja upp skilrúm.

Mikil gleði meðal hundaeigenda um stund

„Við erum miklir dýravinir og vildum svo sannarlega geta leyft fólki að koma inn með hunda sína,“ segir Arndís. „Það er hins vegar ekki mögulegt og við hlýðum því að sjálfsögðu.“

Ásmunur Helgason, eigandi Gráa kattarins, tekur í sama streng. „Það var hins vegar mikil gleði meðal hundeigenda að geta dottið inn á kaffihús með hundinn sinn þann stutta tíma sem skiltið var uppi.“

Illframkvæmanlegt er orð sem kemur fyrir í samtölum við fleiri veitingastaðaeigendur sem urðu fyrir vonbrigðum með að geta ekki leyft gæludýr, en sem ekki vilja tjá sig opinberlega. „Þeir bjuggu til reglugerð til að koma í veg fyrir þetta,“ segir einn.

Annar nefnir að hafa fengið langan lista af hlutum sem þurfti að breyta. Slíkt geri veitingastaðaeigendum erfitt um vik með að láta drauminn rætast og því verði væntanlega einhver bið áfram eftir að ferfætlingarnir fái að koma með á kaffihús.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert