Eðlilegra að borgin óski formlega eftir samvinnu

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri segir enga afstöðu liggja fyrir af …
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri segir enga afstöðu liggja fyrir af hálfu Kópavogsbæjar varðandi hönnunarsamkeppni um Fossvogslaug. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hlutirnir virka auðvitað ekki þannig að Reykjavíkurborg ákveði hvort og hvernig Kópavogur standi að fjölgun sundlauga í bænum. Það hefði verið eðlilegra að borgin óskaði formlega eftir samvinnu við Kópavogsbæ um hönnunarsamkeppnina,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi í samtali við mbl.is.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í gær að við deiliskipulagsgerð í Fossvogsdal verði gert ráð fyrir sundlaug í miðjum dalnum. Tillagan kom frá Degi B. Eggertsyni borgarstjóra og fól í sér að efna skuli til hönnunarsamkeppni um sundlaugina sem Reykjavíkurborg og Kópavogsbær standi að í sameiningu.

Ármann hafði ekki séð bókun borgarráðs þegar mbl.is hafði samband við hann í dag til þess að athuga hvar málefni hinnar fyrirhuguðu Fossvogslaugar væru stödd í stjórnkerfi bæjarins, en lítið hefur heyrst af málinu frá sveitarfélögunum tveimur síðan að starfshópur sveitarfélaganna um staðsetningu laugarinnar skilaði af sér niðurstöðum í júlímánuði árið 2013.

Hann segir að ekki liggi fyrir nein afstaða af hálfu Kópavogsbæjar um þá hönnunarsamkeppni sem borgarráð samþykkti að sveitarfélögin skuli standa að í sameiningu.

„Þessi skýrsla sem vitnað er til í borgarráði er frá árinu 2013, þ.e.a.s. frá síðasta kjörtímabili. Í ljósi þess að af ellefu bæjarfulltrúum í Kópavogi eru tíu nýir, þá eðli málsins samkvæmt þarf að eiga sér stað umræða í okkar hóp varðandi þessa hugmynd Reykjavíkurborgar,“ segir Ármann, sem segist bíða þess að Reykjavíkurborg skrifi Kópavogsbæ formlegt erindi þar sem óskað sé eftir samvinnu um hönnunarsamkeppni.

„Í kjölfarið munu bæjarfulltrúar ráða ráðum sínum,“ segir Ármann og bendir á að nauðsynlegt sé að fá fram afstöðu íbúa Snælandshverfis áður en næstu skref séu stigin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert