Innheimtu veggjalds hætt í september

Umferð við Hvalfjarðargöng.
Umferð við Hvalfjarðargöng. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Innheimtu veggjalds í Hvalfjarðargöngum verður hætt í september, að líkindum síðari hluta mánaðarins. Þetta kom fram í dag á aðalfundi Spalar sem á og rekur göngin.

Greint var frá þessu á vefsíðu Spalar.

„Framkvæmdastjóri, fjármálastjóri og endurskoðandi Spalar hafa farið rækilega yfir skuldbindingar félagsins annars vegar og tekjuáætlun hins vegar. Niðurstaðan er sem sagt sú að í einhvern tíma í september verði hætt að innheimta veggjald og í framhaldinu taki Vegagerðin við mannvirkinu og rekstri þess. Þess er að vænta að nánari tímasetning verði ákveðin í maímánuði,“ segir á síðunni.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, upplýsti á aðalfundinum að heildarskuldbindingar félagsins til loka rekstrartímans næmu alls um 1.300 milljónum króna.

Þar vegur þyngst annars vegar lokagreiðsla langtímaskulda Spalar við lífeyrissjóði, 418 milljónir króna að meðtöldum vöxtum og verðbótum, og hins vegar endurgreiðsla veglykla og afsláttarkorta til viðskiptavina, alls um 422 milljónir króna.

Þar við bætast tekjuskattsgreiðslur og útgreiðsla hlutafjár og arðs til hluthafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert