Skjól frá þrælkun og barnahjónaböndum

Þórunn með nokkrum Maasai-konum, en Maasai-fólkið er hjarðfólk sem lifir …
Þórunn með nokkrum Maasai-konum, en Maasai-fólkið er hjarðfólk sem lifir frumstæðu lífi. Ljósmyndir/Þórunn

Hún hefur helgað sig hjálparstarfi undanfarinn áratug og segir verkefnið stundum yfirþyrmandi, en þá verði hún að rífa sig upp og einbeita sér að því sem hún þó getur gert. Þórunn Helgadóttir segir skólana sem Íslenska barnahjálpin rekur í Kenía og Pakistan m.a. vera skjól fyrir börn sem halda til á ruslahaugum.

„Ég hef að mestu leyti búið í Kenía undanfarin ellefu ár, en núna er ég farin að koma meira heim til Íslands og bý því eiginlega í báðum löndunum. Ég er að vinna núna að kynningu hér heima á barnahjálpinni okkar, því við þurfum að afla fleiri stuðningsaðila til að geta rekið þessa skóla, eftir viðskilnaðinn við ABC hjálparstarfið sem varð fyrir tveimur árum,“ segir hugsjónakonan Þórunn Helgadóttir hjá Íslensku barnahjálpinni sem var stofnuð árið 2015 til að standa á bak við starf hennar í Kenía, en samtökin eru rekin sem áhugamannafélag.

„Við rekum tvo skóla í Kenía, annar er í Nairobi og þar vinnum við í fátækrahverfunum og hjálpum götubörnum, börnum sem halda til á öskuhaugunum og börnum einstæðra mæðra. Hinn skólinn er á framhaldsskólastigi og er í Loitoktok sem er í Maasailandi við rætur fjallsins Kilimanjaro. Þar býr Maasai-fólkið, fólk klætt rauðum kuflum með síða eyrnasnepla og spjót í hendi. Þetta er hjarðfólk sem lifir frumstæðu lífi og þar tíðkast enn umskurður stúlkna sem og barnahjónabönd. Við vinnum gegn því með því að leggja áherslu á að taka stelpur inn í skólann, þær sem eru á flótta til að komast undan því að vera gefnar manni barnungar. Yngsta stúlkan sem hefur komið til okkar í þeim aðstæðum var níu ára, en oftast eru þær þrettán eða fjórtán ára þegar þær eru gefnar í hjónabönd. Þær búa á heimavist skólans og eiga því skjól hjá okkur,“ segir Þórunn og bætir við að skólinn í Loitoktok sé einvörðungu heimavistarskóli en skólinn í Nairobi sé blandaður, bæði dagskóli og heimavistarskóli. „Börnin þar eru yngri, alveg niður í þriggja ára, en elstu krakkarnir í Loitoktok eru rúmlega tvítug.“

Sjá samtal við Þórunni í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert