„Við hræðumst ekki Rússa“

Fyrsta reynsla Rihos Terras, yfirmanns eistneska hersins, var í sjóher …
Fyrsta reynsla Rihos Terras, yfirmanns eistneska hersins, var í sjóher Sovétríkjanna. Meðal annars í kafbátum í hafinu við Ísland. mbl.is/Árni Sæberg

„Staðan í heimsmálunum eins og hún er í dag er frekar óstöðug. Ekki einungis vegna Eystrasaltsríkjanna og Rússlands heldur einnig meðal annars vegna Sýrlands, Tyrklands, Norður-Kóreu og Kína. Þannig að það er óstöðugleiki fyrir hendi víða. Hins vegar er vandamálið frá okkar sjónarhóli fyrst og fremst Rússland. Rússar hafa sýnt að þeir hafa getuna til þess og eru reiðubúnir til þess að beita hefðbundnum hernaðarmætti til þess að ná pólitískum markmiðum sínum.“

Þetta segir Riho Terras, yfirmaður eistneska hersins, í samtali við mbl.is en hann er staddur á Íslandi þessa dagana þar sem hann hefur rætt við fulltrúa íslenskra stjórnvalda og kynnt sér aðstæður á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Blaðamaður minntist á það við upphaf viðtalsins að reynsla Íslendinga af Rússum hernaðarlega séð væri bundin við ferðir rússneskra herskipa í kringum Ísland. Terras gat þess þá að honum hefði á sínum tíma verið gert að sinna herskyldu í sjóher Sovétríkjanna þegar Eistland var enn hluti þeirra. Meðal annars í kafbátum í hafinu við Ísland.

Heræfing Rússa nefnd Vestur

„Við hræðumst ekki Rússa, það er ekki málið. Almenn afstaða fólks í Eistlandi er sú að aðild okkar að öflugasta varnarbandalagi heimsins veiti okkur ákveðna öryggiskennd. Við höfum alltaf lagt áherslu á að leggja okkar af mörkum í starfsemi NATO. Við höfum verið í Írak, með Frökkum í Mið-Afríkulýðveldinu, með Þjóðverjum í Djíbútí, með Bretum í Helman-héraði í Afganistan og Dönum í Kósóvó. Þannig að við höfum alltaf reynt að svara kallinu þegar óskað hefur verið eftir þátttöku okkar í lausn mála.“

Vegna stöðunnar sem upp er komin vegna Rússlands leggi Eistar fyrir vikið áherslu á að bandamenn þeirra hugi að sama skapi að öryggismálum Eistalands. „Þann tíma sem ég hef verið yfirmaður eistneska hersins, það er undanfarin rúm sex ár, hafa Rússar aukið herafla sinn við landamærin að Eistlandi og Lettlandi úr 41 þúsund hermönnum í 76 þúsund. Þetta er nánast tvöföldun. skriðdrekum hefur til dæmis fjölgað í rúmlega þrjú hundruð. Það þarf enginn að segja mér að þetta sé einhver friðsöm heræfing. Sú er ekki raunin. Þess utan hafa farið fram viðamiklar heræfingar. Til að mynda fór fram heræfing á síðasta ári, sem rúmlega eitt hundrað þúsund hermenn tóku þátt í og kölluð var Vestur. Það er á fárra vitorði. Það þýðir einfaldlega án nokkurs vafa að henni var beint í vestur. Hún fór fram við landamærin að Noregi, Tyrklandi og landamærin að öllum bandalagsríkjunum í vestri.“

Terras segir að mikilvægt sé að hafa þetta í huga. Hann segist enda ekki telja Vladimír Pútín, forseta Rússlands, herkænskusnilling heldur fyrst og fremst tækifærissinna. Sjái hann veikleika reyni hann að nýta sér hann. Til að mynda reyni hann að reka fleyg á milli aðildarríkja NATO enda sé samstaða bandalagsríkjanna þeirra helsti styrkur. Enginn hafi til dæmis búist við því að Pútin myndi leggja undir sig Krímskagann með hervaldi. Hins vegar hafi hann séð sér leik á borði vegna veikrar stöðu ríkisstjórnar Úkraínu. Almenningur hafi ekki borið traust til hennar. Það skorti á samstöðuna í landinu og Pútín nýtti sér þann veikleika. Afleiðingin er hins vegar sú að Úkraínumenn hafa aldrei staðið meira saman. Bæði gagnvart stjórnvöldum í Rússlandi og gegn spillingu sem og að reyna að takast á við efnahagserfiðleikana sem við er að etja í landinu. „Ég á ekki von á því að Pútín geti úr þessu skipt um ráðamenn í Úkraínu eins og til stóð í upphafi.“

Terras segir Pútín í raun ekki skilja annað en harða afstöðu og að heræfingar í Eystrasaltsríkjunum á undanförnum árum og víðar á vegum NATO hafi sent Rússum rétt skilaboð. Það er að aðildarríkin standi saman og geti gripið til aðgerða gerist þess þörf.

Tvo þarf til að eiga samtal

„Við þurfum vitaskuld líka að halda möguleikanum á samtali opnum en samtal krefst þess auðvitað að báðir aðilar séu reiðubúnir að taka þátt í því. Því miður virðast Rússar gjarnan aðeins hafa áhuga á eintali. Fyrir vikið er ekki auðvelt að eiga í samtali við rússneska ráðamenn. Stjórnvöld í Rússlandi reyna meðal annars að eiga í tvíhliða samskiptum við einstök ríki innan NATO sem getur orðið til þess að rjúfa samstöðuna og það er auðvitað ekki af hinu góða. Samstaða bandalagsríkjanna skiptir lykilmáli og ekki síst fyrir lítil ríki eins og okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert