Bókabúð Máls og menningar auglýst til sölu

Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg.
Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg. mbl.is/Eggert

Í vikunni hefur gengið á milli manna tölvupóstur þar sem Bókabúð Máls og menningar er auglýst til sölu. Í samtali við mbl.is staðfestir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, annar eigenda bókabúðarinnar, að fasteignasala hafi verið gefið leyfi til að kanna markaðinn. Ekkert hafi þó verið ákveðið um sölu bókabúðarinnar og hún sé ekki í söluferli.

Fjallað er um efni tölvupóstsins og það birt á bókmenntavefnum Bókaskápur Ástu S. 

Í bréfinu, sem mun hafa verið sent til nokkurra aðila sem taldir voru geta haft áhuga, er hvergi minnst á nafn bókabúðarinnar en af lýsingunum kemur enginn annar rekstur til greina:

„Er með rekstur til sölu á einum besta stað við Laugaveginn rétt fyrir ofan Bankastræti. Um er að ræða verslun á tveimur hæðum og kjallari [sic]. Hluti af efri hæðinni er rekin [sic] sem veitingahús en hinar hæðirnar eru reknar sem bókaverslun. Hægt er að stækka veitingareksturinn, minnka bókaverslunina og bæta við annars konar seljanlegri vöru en það eru margir möguleikar þar.

Frábær staðsetning fyrir allskonar gjafavörur í miðdepli ferðamannastraumsins. Þarna getur verið allskonar verslunar[-] og veitingarekstur.“

Arndís Björg segir að reglulega sé samband haft vegna áhuga á bókabúðinni. Árið 2016 var Bókabúð Máls og menningar seld Birni Inga Hrafnssyni, en hann greiddi aldrei kaupverðið og gekk salan því til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert