Tugir bifreiðaeigenda gætu átt von á sekt

Ekki hafa allir farið að fyrirmælum Isavia.
Ekki hafa allir farið að fyrirmælum Isavia. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

„Öll langtímastæðin okkar eru full,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, um stæði félagsins við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

„Í gær og í dag höfum við ráðlagt fólki að leita annarra leiða til að komast á flugvöllinn en á einkabílum. Fyrir tæpum tveimur vikum sendum við út tilkynningu og vorum að hvetja fólk til þess að huga að þessu af því að við sáum að það stefndi í eitthvað svipað og í fyrra þegar stæðin fylltust alveg og gott betur.“

Guðjón segir fólk hafa tekið við sér og mikið hafi bæst í bókanir á stæðum. Einhverjir hafa þó ekki farið að fyrirmælum frá Isavia, en eins og sjá má af myndunum sem ljósmyndari á vegum mbl.is tók nú síðdegis hefur fleiri tugum bifreiða verið lagt utan stæða.

Hér sést hvar bílum er lagt meðfram malarvegi skammt frá …
Hér sést hvar bílum er lagt meðfram malarvegi skammt frá flugstöðinni. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Betri kjör á bílastæðum ef bókað er fyrirfram

Guðjón segir að leggi fólk ólöglega í kring um flugstöðina megi það eiga von á sekt.

„Við viljum að þetta verði hluti af ferlinu þegar fólk bókar sér flug langt fram í tímann,“ segir hann og á við að fólk bóki stæði um leið og flug er bókað. „Það er hægt að fá betri kjör á bílastæðum ef bókað er fyrirfram.“

Guðjón bendir á að þeir sem bókað hafa stæði hafi að sjálfsögðu aðgang að þeim, þó hann segi bílastæðin full, en fyrir skemmstu var tekið fyrir það að hægt væri að mæta á staðinn og fá stæði án bókunar.

Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert