5 ár fyrir að múta opinberum starfsmanni

Þyngja á refsingu við því að bera mútur á opinbera …
Þyngja á refsingu við því að bera mútur á opinbera starfsmenn úr fjögurra ára fangelsi í fimm. mbl.is/Golli

Refsing við því að bera mútur á opinbera starfsmenn verður þyngd úr fjögurra ára fangelsi í fimm ára fangelsi, verði frumvarp sem dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi fyrir páska að lögum. Þá er einnig tilgreint í frumvarpinu að refsiramminn nái ekki aðeins til starfsmanna innlendra fyrirtækja, líkt og fram kemur í núverandi lögum, heldur að þau nái einnig til starfsmanna erlendra fyrirtækja.

Frumvarpinu er ætlað að draga úr muninum á refsirammanum sem nú er í gildi milli þeirra sem bera mútur á opinbera starfsmenn og svo hámarksrefsingar sem þeir opinberu starfsmanna sem gerast sekir um mútuþægni eiga yfir höfði sér, en hámarksrefsing fyrir brot gegn því ákvæði er nú sex ára fangelsi.

Með breytingunni á að koma til móts við tilmæli vinnuhóps OECD um erlend mútubrot, sem og tilmæli skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og sakamál (UNODC). Hafa stofnanirnar annars vegar gagnrýnt að mútugreiðslur til embættismanna í erlendum ríkisfyrirtækjum hafi ekki verið gerðar refsiverðar með skýrum hætti og hins vegar að hámarksrefsing fyrir að bera mútur í opinbera starfsmenn hafi ekki verið þyngd til samræmis við mútuþægni opinberra starfsmanna.

Komið er til móts við þessi sjónarmið með frumvarpinu, en ekki tekið undir þau sjónarmið að refsirammi fyrir að bera mútur í opinbera starfsmenn eigi að vera sá sami og fyrir mútuþægni opinberra starfsmanna.

„Þegar litið er til ríkra trúnaðarskyldna opinberra starfsmanna og þeirra almannahagsmuna sem þeim hefur verið falið að standa vörð um verður ekki litið öðruvísi á en svo, að þegar aðili í þeirri aðstöðu krefst eða tekur við mútum fremji hann alvarlegra brot heldur en sá sem þær býður. Er mikilvægt að refsirammi ákvæðanna endurspegli mismunandi eðli brotanna að þessu leyti,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Er tilgangur lagabreytinganna að tryggja að íslensk hegningarlög séu í samræmi við samning um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum sem gerður var á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) 1997.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert