800 bílar á bílastæði utan flugvallarins

Frá geymslusvæði Baseparking að Ásbrú. Mynd úr safni.
Frá geymslusvæði Baseparking að Ásbrú. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til viðbótar við þá rúmlega tvö þúsund bíla sem eru nú á bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar yfir páskahátíðina eru tæplega 800 bílar á bílastæði bílageymsluþjónustunnar Baseparking að Ásbrú. Ómar Þröstur Hjaltason, framkvæmdastjóri félagsins, segir í samtali við mbl.is að undanfarna daga hafi fjöldi bíla sem þeir þjónusta daglega tvöfaldast og þeir séu líkt og flugvöllurinn núna orðnir fullbókaðir.

Í gær greindi mbl.is frá því að bílastæðin við Keflavíkurflugvöll væru orðin full, en þetta er annað árið í röð sem það gerist. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is að hann sjái ekki fram á að staðan breytist neitt fyrr en í fyrsta lagi á mánudaginn. Hann segir heildarfjölda bílastæða við flugvöllinn vera rúmlega tvö þúsund og þar sem búist hafi verið við að þau myndu fyllast hafi verið látið vita af ástandinu fyrir fram.

Rúmlega tvöfalt fleiri bílar í kringum páskana

Talsvert hefur verið um að bílum sé lagt fyrir utan umráðasvæði Isavia við völlinn og sagði Guðjón í gær við mbl.is að eigendur þeirra bíla gætu átt von á sektum. Stór hluti þeirra bíla er á vegum Baseparking, en Ómar segir að bílarnir séu þar einungis í skamma stund fyrri hluta dags meðan fyrirtækið komi bílum yfir á öryggissvæði sitt við Ásbrú.

Hér sést hvar bílum er lagt meðfram malarvegi skammt frá …
Hér sést hvar bílum er lagt meðfram malarvegi skammt frá flugstöðinni, en Ómar segir að þar séu bílarnir aðeins í skamma stund áður en þeir séu ferjaðir á bílastæði fyrirtækisins. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Segir hann að fyrirtækið taki á móti 30-50 bílum á hverjum degi, en núna um páskana hafi fyrirtækið verið að taka á móti 70-140 bílum og því hafi þurft að nýta aðstöðu fyrir utan flugstöðina í skamma stund meðan unnið væri að því að ferja alla bílana á Ásbrú.

Segir staðfest að ekki verði sektað

Ómar gefur lítið fyrir orð Guðjóns um sektir og segir að svæðið sé í fyrsta lagi utan umráðasvæðis Isavia. Þá hafi forsvarsmenn fyrirtækisins fengið það staðfest frá lögreglu að bílar sem þar séu í skamman tíma verði ekki sektaðir.

Vilja aðstöðu nærri flugvellinum

Ómar segir að þessi staða væri þó ekki uppi ef Isavia hefði tekið vel í hugmyndir félagsins um að fá aðstöðu í nágrenni flugvallarins, en svo hafi ekki verið. Forsvarsmenn Baseparking hafi því nýverið snúið sér til Sandgerðisbæjar sem hafi tekið jákvætt í hugmyndina um einhvers konar aðstöðu í nágrenninu. „Í dag þurfum við að fara út fyrir flugvallarsvæðið til að athafna okkur. Það er mikilvægur rekstrargrundvöllur að fá þetta pláss við flugvöllinn fyrir okkur,“ segir Ómar.

Guðjón segir að fulltrúar Baseparking hafi komið að máli við Isavia varðandi aðgang að bílastæðum fyrirtækisins og að Isavia hafi boðið þeim sömu kjör og öðrum fyrirtækjum sem eru á flugvellinum. Segir hann að gæta hafi þurft jafnræðis milli aðila og að ekki sé hægt að mismuna fyrirtækjum. Baseparking hafi aftur á móti hafnað boði Isavia. Þá segir hann að ef það ætti að fara að úthluta aðstöðu á flugvellinum kallaði það væntanlega á útboð en ekki ákvörðun sem væri tekin á skömmum tíma, enda þyrftu allir að sitja við sama borð.

Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Sem fyrr segir eru rúmlega tvö þúsund bílar við flugstöðina í dag og til viðbótar um 800 bílar hjá Baseparking. Má því áætla að tæplega þrjú þúsund bílar landsmanna hafi verið notaðir á síðustu dögum til að keyra spennta utanlandsfara út á völl.

Gera má ráð fyrir að nokkuð slakni á ösinni strax eftir páska, en bæði á Guðjón von á því að þá losni strax mikið af bílastæðunum við völlinn sjálfan og þá segir Ómar að fyrirtækið muni afhenta um 300 bíla til farþega sem koma aftur til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert