Úrkoma í flestum landshlutum og jafnvel slydda

Í dag og á morgun má búast við úrkomu í …
Í dag og á morgun má búast við úrkomu í flestum landshlutum og jafnvel slyddu t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Næstu daga fer svo kólnandi. mbl.is/Golli

Í dag má búast við fremur hægri norðlægri eða breytilegri átt víðast hvar, en dálítilli úrkomu í flestum landshlutum, en þurrt að kalla á morgun, ef undanskilið er allra syðst á landinu. Heldur kólnar á landinu og búast má við frosti um allt land næstu nótt og að hitinn fari ekki yfir 5-6°C yfir hádegi þar sem best lætur. Er útlit fyrir að einna mildast verði við suður- og suðvesturströndina. Þetta kemur fram í spá Veðurstofunnar í dag.

Spáð er norðlægri átt, 3-10 m/s, í dag, en austlægari átt á morgun. Á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir hægri breytilegri átt með skýjuðu veðri og lítils háttar rigningu eða jafnvel slyddu öðru hvoru í dag. Hiti 2 til 6 stig að deginum.

Á laugardaginn er gert ráð fyrir 5-10 m/s og sums staðar skúrum eða éljum, en yfirleitt þurru á Norðvesturlandi. Hiti að 4 gráðum sunnan til, en annars vægt frost.

Á páskadag er gert ráð fyrir austlægri og breytilegri átt, 3-8 m/s, og éljum eða snjókomu í flestum landshlutum og heldur kólnandi veðri. Á annan í páskum og fram í næstu viku má gera ráð fyrir norðaustanátt með éljagangi og svölu veðri, en yfirleitt björtu suðvestanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert