Boða aukin framlög til margra mála

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjármálaáætlunina.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjármálaáætlunina. mbl.is/Hari

Fyrsta fjármálaáætlun ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var kynnt í dag á fundi sem hófst núna kl. 16:30. Fjármálaáætlunin gildir fyrir árin 2019-2023 og má skoða í heild sinni hér. 

Í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að styrkari staða ríkissjóðs, lægri vaxtagreiðslur og horfur um minnkandi spennu í hagkerfinu skapi ríkisstjórninni góða stöðu til að fylgja eftir markmiðum sínum um auknar fjárfestingar í samfélagsinnviðum og styrkingu velferðarþjónustu.

Framlög til heilbrigðismála verða í lok tímabilsins um 249 milljaðar króna á ári, og hafa þá uppsafnað aukist um 40 milljarða frá fjárlögum 2018, eða rúmlega 19% að raunvirði.

Í áætluninni er gert ráð fyrir tæplega 75 milljarða króna fjárfestingu í sjúkrahúsþjónustu og fer mest til byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Framkvæmdir við byggingu nýs meðferðarkjarna hefjast á árinu 2018 en meginþungi framkvæmda verður á árunum 2020-2023.

Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir kerfisbreytingu til að bæta kjör örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Einnig er áformað að hækka hámarksfjárhæðir í fæðingarorlofi og lengja orlofstímann, að því er segir í tilkynningu.

Arðgreiðslur bankanna til samgöngumála

Umfangsmikil fjárfesting í samgöngu- og fjarskiptamálum verður meðal annars fjármögnuð með arðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Alls er reiknað með að framlög til málaflokksins nemi 124 ma.kr. á tímabilinu og að frá árinu 2019 bætist við sérstök árleg framlög til þriggja ára upp á 5,5 ma.kr. Gert ráð fyrir að ljósleiðaravæðingu landsins ljúki árið 2020.

Þá munu framlög til umhverfismála hækka umtalsvert, eða um 4 milljarða króna, á áætlunartímabilinu. Framlög til háskólanna munu verða hækkuð um ríflega 2,8 milljarða.

Einnig mun Ísland hækka framlag sitt til opinberrar þróunarsamvinnu úr 0,26% af vergum þjóðartekjum á yfirstandandi ári í 0,35% árið 2022.

Gert er ráð fyrir þyrlukaupum fyrir Landhelgisgæsluna og því að Hús íslenskunnar rísi á áætlunartímabilinu.

Í fréttatilkynningu segir að þrátt fyrir verulega aukin framlög til allra helstu málefnasviða haldist samneysla ríkisins, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, stöðug yfir áætlunartímann eða í kringum 11,2%. Aukin framlög haldist því í hendur við getu þjóðarbúsins til að fjármagna betri þjónustu við almenning.

Heildarendurskoðun tekjuskatts einstaklinga

Gert er ráð fyrir þó nokkrum skattabreytingum, meðal annars lækkun tryggingagjalds um 0,25 prósentustig á árinu 2019, úr 6,85% í 6,6%. Um tryggingagjaldið segir enn fremur að frekari lækkun ráðist m.a. af niðurstöðu samráðs við aðila vinnumarkaðarins um útfærslu réttinda, sem fjármögnuð eru með tryggingagjaldi, og afkomu ríkissjóðs.

Í áætluninni er gengið út frá að tekjuskattur í neðra skattþrepi lækki um allt að eitt prósentustig í áföngum á áætlunartímanum, en ríkisstjórnin mun einnig eiga samtal við aðila vinnumarkaðarins um samspil tekjuskatts og bótakerfa á árinu. Stefnt er að heildarendurskoðun tekjuskatts einstaklinga, samhliða endurskoðun bótakerfa.

„Þar er horft til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og vegna húsnæðiskostnaðar, með markvissari fjárhagslegum stuðningi við efnaminni heimili,“ segir í tilkynningunni.

Virðisaukaskattur á bækur verður afnuminn í byrjun árs 2019 og ári síðar verða höfundarréttargreiðslur, sem viðurkennd rétthafasamtök innheimta, skattlagðar sem eign en ekki tekjur. Sérstakur bankaskattur verður lækkaður úr 0,376% í 0,145% á áætlunartímabilinu og þá verður skattstofn fjármagnstekjuskatts endurskoðaður með það að markmiði að skattleggja raunávöxtun, en áhrif þeirra breytinga eiga að koma fram árið 2020.

Kolefnisgjald á eldsneyti var hækkað um 50% í byrjun árs og fyrirhugað er að hækka gjaldið um 10% árið 2019 og aftur 2020. Skoðaðar verða leiðir til gjaldtöku af ferðamönnum og að það gjald verði lagt á frá og með árinu 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert