Börnin dansa floss ósjálfrátt

Dansararnir standa kyrrir með grafalvarlegan svip og sveifla höndunum stífum …
Dansararnir standa kyrrir með grafalvarlegan svip og sveifla höndunum stífum í kringum sig á meðan mjöðmunum er hnykkt hratt til og frá, eins og þessir dansarar í Dansskóla Birnu Björns gera. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir að hafa snúið þyrilsnældum í gríð og erg og búið til slím í tonnavís eru börnin okkar farin að dansa heldur óvenjulegan dans sem mörgum þykir erfitt að leika eftir.

Svokallaður floss-dans á uppruna sinn hjá bandarískum unglingi sem setti þessa danshreyfingu inn á samfélagsmiðil og síðan hefur hún náð heimsyfirráðum.

Dansinn er ýmist kallaður floss- eða backpack kid-dansinn og snýst um að standa kyrr með grafalvarlegan svip og sveifla höndunum stífum í kringum sig á meðan mjöðmunum er hnykkt hratt til og frá. Virðist auðvelt en er það ekki ef vel á að vera og gera.

Birna Björnsdóttir hjá Dansskóla Birnu Björns hefur ekki farið varhluta af þessu dansæði, bæði í dansskólanum og heima.

„Öll börn í dansskólanum gera þetta í öðru hverju spori þegar þau ganga inn í skólann. Þó að þau standi og tali við mann gera þau þetta allan tímann og ég er farin að gera þetta sjálf á meðan ég tala við þau. Þetta er ferlega skemmtilegt. Sonur minn, sem er ekki í dansi heldur fótboltastrákur, getur ekki verið kyrr heldur gerir þetta allan tímann líka. Það þarf ekki að vera tónlist undir heldur gera þau þetta ósjálfrátt.“

Birna segir foreldra stundum biðja sig um að kenna sér dansinn en að þeir séu miklu lengur að ná honum en börnin. „Þetta virðist vera einfalt en getur verið mjög flókið líka. Þetta er rosalega skemmtileg hreyfing og gaman að sjá krakkana keppa um hversu hratt þau geta dansað án þess að ruglast. Dansinn er fínn fyrir mjaðmirnar og bakið og góð samhæfing.“

Spurð hvort hún muni eftir einhverju svipuðu segir Birna þetta ekki ólíkt því þegar hipphoppið var að koma og allir voru að reyna að gera The Running Man eða ákveðnar hreyfingar eins og orminn þegar breikið var sem vinsælast. Einnig megi líkja þessu við moonwalk sem Micheal Jackson kom á kortið.



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert