Líktu málinu við sögu Davíðs og Golíats

Jóhann Helgason og Hilmar Foss á fundinum í dag.
Jóhann Helgason og Hilmar Foss á fundinum í dag. mbl.is/Eggert

„Þegar ég samdi söknuð 27 ára var ég á samningi hjá Warner Chapell. Ef ég hefði skráð Söknuð hjá þeim hefðu þeir útkljáð þetta mál strax í byrjun en hér á Íslandi er 99% af höfundum ekki með neina risa á bak við sig,“ sagði tónlistarmaðurinn Jóhann Helgason á blaðamannafundi sem efnt var til vegna málshöfðunar hans gegn Universal Music. 

Málið á ræt­ur að rekja til árs­ins 2004 þegar STEF lét fram­kvæma sér­fræðiálit þar sem tón­skylt efni lag­anna Söknuður eftir Jóhann og You Raise Me Up eftir Rolf Løv­land var metið allt að 97%.

Blaðamannafundurinn var haldinn í hljóðverinu Hljóðrita í Hafnarfirði þar sem lagið Söknuður var tekið upp árið 1977.

Grunsemdir um alvarlegan hugverkastuld

Fram kemur í tilkynningu að um leið og norski lagahöfundurinn Rolf Løv­land skrifaði sig fyrir laginu You Raise Me Up sem Universal Music gaf út með texta Brendan Graham og söng Josh Groban hafi grunsemdir vaknað um alvarlegan hugverkastuld.

„Fyrir tíu árum ákvað Jóhann að höfða mál gegn hinum meinta höfundi lagsins og útgefanda þess. Málið var þingfest fyrir breskum dómstólm og reyndist Universal Music reiðubúið til þess að taka til fullra varna. Ljóst var að sókn málsins gegn útgáfurisanum yrði gífurlega kostnaðarsöm og var fyrirhugaðri málshöfðun slegið á frest," segir í tilkynningunni. 

Þar segir að núna hafi verði tekin ákvörðun um að halda málinu áfram. Lögmannsstofan TSPMH hafi sent kvörtunarbréf til Universal Music og borist svar þar sem öllum ávirðingum um hugverkastuld sé vísað á bug. Því blasi málaferli við. Áætlaður kostnaður við þau er um ein milljón punda. 

Fjárins verður aflað með þekktri aðferðafræði þar sem fjárfestar fjármagna málaferli með hlutdeild í fjárhagslegum ávinningi að leiðarljósi. Gert er ráð fyrir að kröfur um höfundarlaunagreiðslur og skaðabætur hlaupi á milljörðum íslenskra króna.

Frá blaðamannafundinum í Hljóðrita í Hafnarfirði.
Frá blaðamannafundinum í Hljóðrita í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert

Erfið sönnunarbyrði í svona málum

Sigtryggur Baldursson, formaður ÚTÓN, sagði á fundinum að mál sem þessi séu ávallt erfið því margir lagahöfundar vinni mikið úr undirmeðvitundinni. 

Hann sagði sönnunarbyrðina erfiða í svona málum. Mikilvægur hluti af málshöfðuninni sé að sýna fram á að norski höfundurinn hafi heyrt Söknuð áður en hann samdi You Raise Me Up. 

Nefndi Sigtryggur að höfundurinn hafi verið hluti af norska teyminu sem tók þátt í Eurovision tvívegis. Í annað skiptið hafi hópurinn fengið kassettu með íslenskum lögum, þar á meðal Söknuði.

Pétur heitinn Kristjánsson starfaði þá hjá Skífunni og var hann fenginn til að dreifa kassettum með íslenskum lögum á meðan á úrslitum Eurovision stóð í Zagreb. 

„Það sem er sorglegt við þetta er að við höfum ekki batterí hér á Íslandi sem getur almennilega stutt við höfunda sem lenda í svona málum því STEF hefur ekki bolmagn til þess,“ sagði hann og líkti málinu við baráttu Davíðs gegn risanum Golíat.

Ný útgáfa gerð vegna málshöfðunar

Jon Kjell vann nýja, enska útgáfu Söknuðar til að hjálpa lögfræðingum við að fjármagna málshöfðunina. Auðveldara er að hafa lagið í sama búningi og You Raise Me Up í dómsal, þannig að dómarar geti áttað sig betur á líkindunum.

Jon sagði á fundinum að 14 af 16 mikilvægustu nótum laganna tveggja hljómi alveg eins. „Það verður að koma einhver úrskurður í þessu máli,“ sagði Jón um ástæðu þess að hann tók verkefnið að sér.

Þykkur múrveggur 

Hilmar Foss, vinur Jóhanns sem hefur aðstoðað hann í málinu, sagði 7 þúsund starfsmenn vinna hjá Universal Music og að fyrirtækið hafi velt 700 milljörðum króna á síðasta ári. „Þeir veltu 700 milljörðum á síðasta ári og Jóhann býr í íbúð í fjölbýlishúsi á Seltjarnarnesi,“ sagði hann og líkti málinu einnig við baráttu Davíðs við Golíat. „Þetta er múrveggur sem er þykkur, hár og stór.“

Hilmar benti einnig á að ferðalög Söknuðar og You Raise Me Up hafi verið svipuð. Bæði lögin hafi til dæmis verið notuð á minningarathöfnum og í jarðarförum og að skilaboð textanna séu mjög áþekk. 

Hann sagði líkindin með lögunum slík að Jóhann gæti aldrei markaðssett Söknuð erlendis því fólk heyri alltaf You Raise Me Up, sem er mun frægara lag. „Utan Íslands er búið að taka forræði Söknuðar af Jóhanni.“

You Raise Me Up hefur til þessa selst í tæplega 100 milljónum eintaka og hafa yfir 600 listamenn spreytt sig á ólíkum útsetningum og flutningi lagsins í yfir eitt þúsund ábreiðum á yfir 40 tungumálum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert