Verkefnið er risastórt

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, segir stjórnvöld ætla að …
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, segir stjórnvöld ætla að ljúka ljósleiðaravæðingu alls landsins árið 2020. mbl.is/​Hari

Tvöföldun vega í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er að hluta til inni í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því á blaðamannafundi í fjármálaráðuneytinu í dag að reiknað sé með 124 milljörðum króna í samgöngu- og fjarskiptamál í áætluninni.

„Í samgöngumálum, þar sem er verulegt verkefni framundan, þá erum við að nýta færi sem gefst m.a. með óreglulegum arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjunum til að fara í  átak í samgöngumálum á árunum 2019, 2020 og 21,“ segir Sigurður Ingi. Þess utan sé einnig verið að setja sérstaklega 5,5 milljarða á ári, þessi þrjú ár, til að koma átaki í vegamálum hraðar í gang. „Þessir 5,5 milljarðar koma koma úr óreglulegum arðgreiðslum fjármálafyrirtækjanna,“ segir ráðherra.

Vegir ónýtir víða um land

Sigurður Ingi segir 70-75 milljarða af þessu fé fara í vegamál á árunum 2019-2021. „Síðan erum við með meira fé í  ár og þar sem að vegirnir koma alveg sérstaklega illa undan þessum vetri, þeir eru ónýtir víða um land, þá  erum að skoða hvort að við getum gert eitthvað betur á þessu ári.“

Spurður hvort að tvöföldun vega í nágrenni höfuðborgarsvæðisins sé inni í áætluninni segir hann svo vera að hluta. „Hluti af þessu yrði þarna inni og tengist þá samgönguáætlun sem kemur fram í haust,“ segir Sigurður Ingi. „En til þess að geta tekið á þeim stórkostlega vanda sem við glímum við vegna aukinnar umferðar og vegna þess að við höfum ekki sinnt viðhaldi nægjanlega vel í alltof mörg ár, þá höfum við líka verið með til skoðunar hvort að hægt sé að fara í að flýta ákveðnum mikilvægum verkefnum til hliðar með einhvers konar gjaldtöku.“ Slíkt væri hrein viðbót við fjármálaáætlunina þar sem að verkefnið í vegamálum sé risastórt.

Stórkostlegt afrek að ná að tengja 99,9% heimila í landinu

„Við ætlum auk þess að ljúka ljósleiðaravæðingu alls landsins og það er stórkostlegt afrek að ná að tengja 99,9% heimila í landinu árið 2020,“ segir Sigurður Ingi.

47 milljarða króna aukning í síðasta fjárlagafrumvarpi hafi að mestu farið í  heilbrigðis- og menntamálin. „Þar sem þörfin var mjög brýn,“ segir hann. „En í þessari áætlun, þeirri fyrstu þessarar ríkisstjórnar þá höldum við áfram.“ Nú sé áhersla sé lögð á  geðheilbrigðismálin, að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga og efla heilsugæsluna og nemi aukning til þess málaflokks 19%. 

Athyglinni sé enn fremur beint áfram að menntamálum með auknum framlögum til háskóla, enda stefni stjórnin að því að ná  meðaltali OECD ríkja í þeim efnum. „Þá aukum við einnig framlög til háskóla- og framhaldsskólanema og afnemum virðisaukaskatt á bækur.“

Sagði Sigurður Ingi fjármálaáætlunina lýsa vel þeirri sýn sem forystumenn stjórnarflokkanna hafi setið með í nóvember þegar ríkisstjórn var mynduð. „Það er sýn til þess að byggja upp innviði og nýta tækifærið sem er óvenju gott.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert