Ekkert vatnsúðakerfi í húsinu

Frá slökkvistarfinu í Garðabæ.
Frá slökkvistarfinu í Garðabæ. mbl.is/Eggert

Ekkert vatnsúðakerfi er í húsnæði Icewear og Geymslna í Miðhrauni þar sem eldur kom upp í morgun. Hvort slíkt kerfi hefði átt að vera til staðar er óvitað á þessu stigi segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri við mbl.is. Þá segir hann húsið meira og minna illa laskað eftir brunann.

Skortur á vatnsúðakerfi gerði slökkvistarf erfiðara og var mikið af eldsmat í húsinu, slökkvistarf hefur þess vegna þurft að vera unnið mestmegnis að utanverðu að sögn slökkviliðsstjórans. Enn er töluverður eldur á ákveðnum svæðum sem slökkviliðið er að reyna að ná tökum á.

Sérstaklega þykir erfitt fyrir slökkviliðið að eiga við geymslurnar sem eru margar smáar einingar og langir gangar sem sem flækja slökkvistarf. Við þetta bætist að á lagernum sem var fyrir miðju hússins var mikið magn af eldsmat. „Í svona stærri brunum er mikið af svona hreiðrum hér og þar sem menn átta sig ekki alveg á í upphafi og þurfa að elta,“ segir Jón Viðar.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri, til hægri, fyrir utan húsnæði Icewear …
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri, til hægri, fyrir utan húsnæði Icewear í Garðabæ mbl.is/Eggert

Brunaviðvörunarkerfi virðist hafa virkað eins og skyldi þegar kviknaði í og heyrðist í brunabjöllum að sögn Jóns Viðars. Þó virðist sem einhverjir erfiðleikar hafi verið fyrir starfsmenn að yfirgefa bygginguna eins og komið hefur fram í umfjöllun mbl.is

Varðandi ástand byggingarinnar segir Jón Viðar að um sé að ræða talsvert tjón, „eins og blasir við mér núna finnst mér húsið vera meira og minna illa laskað og illa farið“ og bætir við að ekki sé vitað um eldsupptökin að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert