Kjöraðstæður fyrir svifryk næstu daga

Reykjavíkurborg hvetur íbúa til að skipta út nagladekkjunum sem fyrst.
Reykjavíkurborg hvetur íbúa til að skipta út nagladekkjunum sem fyrst. mbl.is/Hari

Mikilvægt er að ökumenn skipti út nagladekkjum sem fyrst til að minnka líkur á svifryksmengun, að því er segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Svifryk í lofti hefur mælst yfir heilsuverndarmörkum í dag og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hvetur enn á ný börn og þá einstaklinga sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum að forðast útivist í nágrenni stórra umferðargatna.

Litlar líkur eru á úrkomu næstu daga og því líklegt að styrkur svifryks fari yfir heilsuverndarmörk, en sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

 „Vegagerðin og Reykjavíkurborg ætla að fara í það að rykbinda í nótt og reyna að þrífa götur þar sem því verður við komið, án þess að valda náttúrlega hættu, því við viljum ekki bleyta götur þegar það er hætta á næturfrosti,“ segir Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Reykjavíkurborg.

Hún segir viðbragðsteymi borgarinnar hafa verið að störfum í dag og niðurstaða þeirra var að fara í þessar aðgerðir.

Ráðist verður í að rykbinda þar sem því verður komið …
Ráðist verður í að rykbinda þar sem því verður komið við í nótt, að sögn heilbrigðisfulltrúa borgarinnar. mbl.is/Hari

„Svo hvetjum við fólk til þess, eins og alltaf, að draga úr notkun einkabílsins eins og hægt er þegar aðstæður eru svona,“ segir Svava, en í fréttatilkynningu borgarinnar segir að samgöngur séu helsta uppspretta loftmengunar í Reykjavík. Borgin hvetur íbúa til að tileinka sér fjölbreytni í samgöngum, hjóla, ganga og nota almenningssamgöngur.

Þá er minnt á það að nagladekk eru ekki leyfileg í Reykjavík frá 15. apríl næstkomandi og ökumenn og eigendur bifreiða eru hvattir til að skipta sem fyrst yfir í sumardekk eða heilsársdekk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert