Enn loga glæður í Miðhrauni

Enn leynast glæður í húsinu sem brann á fimmtudag.
Enn leynast glæður í húsinu sem brann á fimmtudag. mbl.is/Eggert

Enn leynast glæður í húsinu sem brann í Miðhrauni í Garðabæ á fimmtudag. Samkvæmt Jóni Viðari Matthíassyni, slökkviliðsstjóra á höfuðborgarsvæðinu er þó engin hætta á ferð. Starfsfólk Geymslna fékk í dag leyfi til þess að nálgast hluti úr ákveðnum enda hússins til þess að lágmarka tjón.

„Það er bara þannig að um leið og er farið eitthvað að eiga við dótið eða hlutina sem eru á gólfinu þá leynast alltaf glæður inn á milli. Við fórum í dag gerðum dálítinn skurk að slökkva og erum svona að vakta þetta,“ segir Jón Viðar í samtali við mbl.is.

Mikið hefur mætt á slökkviliðinu vegna eldsvoðans.
Mikið hefur mætt á slökkviliðinu vegna eldsvoðans. mbl.is/Eggert

Engin hætta á ferðum

Svæðið er afgirt og vaktað og engin hætta á ferðum. „Við gátum eiginlega ekki farið í þetta af fullum krafti í dag vegna þess að það sem blasir við, og ég þarf að taka tillit til, er að mannskapurinn þarf aðeins að fá að blása og hvíla sig. Á meðan þetta er ekki rjúka upp og pirra eitt eða neitt þá hlaupum við í þetta frá Hafnarfjarðarstöðinni,“ segir slökkviliðsstjórinn.

Aðspurður segir hann engar líkur á því að eldurinn taki sig upp aftur. „Þetta virðist ætla að taka tíma en við þurftum aðeins að hægja á okkur bara útaf mannskapnum, það var ekki hægt að leggja meira á hann akkúrat í augnablikinu en við sinnum þessu svona eftir beiðnum.“

Að sögn verður endanlega metið að morgun hvort þurfið hreinlega að hreinsa innan úr húsinu. Hann vill beina því til almennings að vera ekki á ferð um svæðið. „Þarna er í rauninni ekkert að sjá.“ Svæðið er vaktað af lögreglu, Securitas og starfsfólki Geymslna.

Starfsfólk Geymslna fékk í dag leyfi til þess að nálgast …
Starfsfólk Geymslna fékk í dag leyfi til þess að nálgast hluti úr ákveðnum enda hússins til þess að lágmarka tjón. Ljósmynd/Aðsend

Vettvangurinn lokaður alla næstu viku

Ómar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Geymslna segir, í samtali við mbl.is, að í framhaldi af því að glæðurnar fundust í húsinu hafi þeim verið leyft að fara á staðinn og taka hluti úr ákveðnum enda hússins til þess að lágmarka tjón leigutaka. Var það gert í samráði við lögreglu, slökkvilið og tryggingafélög.

Þó sé alveg skýrt að vettvangurinn er enn lokaður og verður það áfram alla næstu viku og þar til annað verður tilkynnt. Leigutakar fái því ekki að koma sjálfir inn á svæðið.

„Innihald geymslnanna fer allt saman á bretti og merkt hverjir unnu verkið. Það fer svo í ákveðinn gám svo við vitum nákvæmlega hvaða geymsla á dótið,“ segir Ómar. Hann segir þrátt fyrir miklar skemmdir að inn á milli leynist hlutir sem viðkomandi aðilar komi til með að geta nýtt áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert