Hefur farið 1.326 sinnum á Esjuna

Leifur Hákonarson hefur farið 1.326 sinnum á Esjuna á níu …
Leifur Hákonarson hefur farið 1.326 sinnum á Esjuna á níu árum. Ljósmynd/Leifur Hákonarson

Leifur Hákonarson fór í dag í 1.326. skipti á Esjuna á níu ára tímabili. En í dag eru akkúrat níu ár frá því á hann fékk „Esjubakteríuna“ að eigin sögn. 

Það var 8. apríl árið 2009 sem hann fór fyrstu Esjuferðina sem var hluti af því verkefni að koma sér í betra form. Síðan þá eru ferðirnar orðnar 1.326 talsins, eða 147 á ári að meðaltali.

Vildi komast í betra form

Í upphafi setti hann sér það markmið að ná á toppinn á 56 mínútum. Hann náði því strax í júní 2010 en í fyrstu ferðin tók hann 2 klukkustundir og 23 mínútur. Í seinni tíð tekur ferðin hann yfirleitt um eða undir klukkutímann.

„Þetta byrjaði annars þannig að ég var búinn að lofa að vera fararstjóri fyrir Útivist í ferð á Snæfellsjökul þann 28. júní 2009, uppgötvaði þarna í mars að sennilega yrðu ferðafélagarnir að bera mig upp - það var ástæða átaksins sem byrjaði 8. apríl,“ segir Leifur í samtali við mbl.is. 

Leifur hefur farið upp fjallið í öllum veðrum.
Leifur hefur farið upp fjallið í öllum veðrum. Ljósmynd/Leifur Hákonarson

Veðrið engin fyrirstaða

Hann hefur ekki látið íslenska veðrið stoppa sig á ferðum sínum. „Það er virkilega skrítið að hugsa til þess að í átta ár (ég hef sem sagt slakaða aðeins á) þá skipti eiginlega engu máli hvaða veður var, eftir vinnu fór maður á Esjuna. Ef það var hvasst og skafrenningur þá klæddi maður sig bara betur.“

Hann segist alls ekki sá eini sem fer reglulega upp Esjuna, það séu um 20-30 manns sem geri slíkt hið sama. Leifur stofnaði Facebook-hópinn Esjuvinir þar sem finna má upplýsingar um færð og veður og fólk er duglegt að deila myndum af ferðum sínum á fjallið. Allir eru velkomnir í hópinn. 

Þó það hafi ekki verið markmiðið að léttast hefur Leifur þó misst um 15 kg. „Mín niðurstaða er sú að ef maður þarf að ákveða hvort maður ætlar að gera eitthvað erfitt og óþægilegt þá er alltaf hægt að finna ástæðu fyrir frestun. En þegar þetta er orðinn sjálfsagður hluti dagsins þá er það ekkert mál.“

Hann á margar fallegar myndir frá ferðum sínum.
Hann á margar fallegar myndir frá ferðum sínum. Ljósmynd/Leifur Hákonarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert