Frumkvöðlar í Smáralind um helgina

Ungir frumkvöðlar kynna vörur sínar fyrir gestum og gangandi í …
Ungir frumkvöðlar kynna vörur sínar fyrir gestum og gangandi í Smáralind. mbl.is/Hari

„Þetta snýst aðallega um að nemendurnir fái að selja vörurnar sínar og kynna viðskiptahugmyndir,“ segir Minna Melleri, framkvæmdastjóri Junior Achievements (JA) á Íslandi sem stendur fyrir vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralind um helgina.

Yfir 500 nemendur úr þrettán framhaldsskólum taka nú þátt í verkefninu Ungir frumkvöðlar þar sem þeir læra að stofna fyrirtæki og vinna að frumkvöðla- eða nýsköpunarhugmynd sinni. Um helgina er afrakstur vinnunnar svo til sýnis almenningi í Smáralind.

mbl.is/Hari

Fyrirtækin svokölluðu eru 120 í heildina og í dag voru 60 hópar með kynningu en á morgun verður afrakstur hinna 60 til sýnis í Smáralind.

Minna segir fyrirtækin vera allskonar, til dæmis hafi einhverjir þróað snjallforrit, aðrir sett fram nýjungar í matvælum og enn aðrir hrint í framkvæmd hugmyndum sem tengjast ferðamennsku.

mbl.is/Hari

Í lok dags á morgun verða verðlaun veitt fyrir flottasta básinn á vörumessunni. Það verður svo þann 23. apríl sem besta fyrirtækið verður valið. „Besta íslenska fyrirtækið fer á Evrópumót Junior Achievements fyrir Íslands hönd sem haldið verður í Belgrad í Serbíu í sumar,“ segir Minna, en JA eru alþjóðleg samtök sem snerta yfir 10 milljón nemendur í 122 löndum.

Hún segir þetta góða reynslu fyrir ungmennin og að þó þetta séu ekki alvöru fyrirtæki á þessu stigi þá sé þetta gott tækifæri fyrir nemendur til að koma hugmyndum sínum á framfæri.

„Það eru alvöru fyrirtæki sem styrkja okkur og sitja í dómnefnd. Sem dæmi þá er Arion banki mikið inni í startup-heiminum og stundum, ef þeir trúa virkilega á hugmyndir nemenda, þá hvetja þeir þá til að taka þátt í stærri keppnum á borð við Startup Reykjavík.“

mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert