Kúabændur vilja áfram kvóta í mjólkurframleiðslu

Kátar kýr í Kjósinni. Kúabændur vilja áfram kvóta í mjólkurframleiðslu. …
Kátar kýr í Kjósinni. Kúabændur vilja áfram kvóta í mjólkurframleiðslu. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Landssamband kúabænda samþykkti á aðalfundi sínum ályktun þess efnis að haldið verði í framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu í formi greiðslumarks.

Samþykkti aðalfundurinn, sem haldinn var á Hótel Selfossi í dag, að halda skuli í framleiðslustýringunni. „Hámark skuli sett á verð greiðslumarks og viðskipti með greiðslumark skuli fara fram í gegnum opinberan aðila,“ segir í ályktuninni.

Beinir fundurinn því til stjórnar að greina hvaða leiðir séu skilvirkastar í þeim efnum. 

Þá samþykkti fundurinn einnig ályktun þess efnis að stjórnvöld skuli ljúka útfærslu 12. greinar búvörusamnings um starfsskilyrði nautgriparæktar þar sem kveðið er á um verðlagningu, og koma henni í framkvæmd.

„Í greininni felst að verðlagsnefnd í núverandi mynd verði lögð af og afurðastöðvum verði heimilt að verðleggja mjólk til framleiðenda og ákvarða heildsöluverð á mjólkurafurðum. Þó skuli opinber aðili ákveða lágmarksverð til framleiðenda fyrir mjólk innan greiðslumarks og setja markaðsráðandi afurðastöð tekjumörk á innlendum markaði,“ að því er fram kemur í ályktuninni.

Þá verði afurðastöð sem tekur á móti að minnsta kosti 80% mjólkur gert skylt að safna mjólk frá framleiðendum um land allt og greiða þeim sama verð óháð búsetu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert