Allt að níu stiga hiti

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Í dag blæs af suðaustri á landinu, 5-10 m/s víða austanlands en vestan til er öllu hvassara og ekki ólíklegt að vindur nái 18 m/s sums staðar vestast á landinu.

Áfram er útlit fyrir bjartviðri á Norðurlandi en annars staðar eru líkur á lítilsháttar vætu. Það hlýnar nokkuð með þessum suðlægu áttum og hiti gæti náð allt að 9 stigum í dag, bæði sunnan og norðan jökla og á morgun er sömu sögu að segja, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Útlitið fyrir vikuna er svipað, mildara loft úr suðri sækir að en þó gera spár ráð fyrir að aðeins kólni aftur um helgina. Eins og algengt er á vorin má þó enn gera ráð fyrir næturfrosti, og er það líklegast í innsveitum norðaustan til þar sem bjart verður yfir og fremur hægur vindur.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðaustan 5-13 m/s víða um landið austanvert en 10-18 m/s vestan til, hvassast á annesjum. Skýjað og sums staðar skúrir um landið sunnan og vestanvert en skýjað með köflum eða léttskýjað annars staðar. Samfelldari rigning á vestanverðu landinu í nótt og á morgun. Hlýnandi og hiti 2 til 9 stig að deginum, en næturfrost í innsveitum norðaustan til.

Á miðvikudag:

Suðaustan 10-15 m/s og rigning á vestanverðu landinu en hægari og þurrt austantil en smá skúrir með suðausturströndinni. Hiti víða 2 til 8 stig. 

Á fimmtudag:
Suðlæg átt, 5-10 m/s og rigning með köflum á vestanverðu landinu annars víða hægviðri og þurrt. Hiti 3 til 8 stig. 

Á föstudag:
Vaxandi suðaustanátt, 8-13 m/s síðdegis. Rigning með köflum en bjartviðri norðan jökla. Hlýnar heldur í veðri. 

Á laugardag:
Suðaustanátt, 3-10 m/s en hægari vestlæg átt vestast. Vætusamt í flestum landshlutum, síst þó norðaustan til. Hiti 1 til 6 stig. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir austlæga eða breytilega átt með rigningu í flestum landshlutum. Hiti 0 til 6 stig. 

Á mánudag:
Lengst af hæg austlæg átt og skýjað með köflum en dálítil væta við ströndina. Hvessir syðst og bætir í úrkomu um kvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert