Stoppaður ítrekað eftir árásina á Flórída

Jón Eggert hóf hlaupin í febrúar og var myndaður við …
Jón Eggert hóf hlaupin í febrúar og var myndaður við það tilefni. Ljósmynd/Aðsend

Jón Eggert Guðmundsson reynir nú að setja heimsmet í lengstu þríþraut í heimi. Hann var ítrekað stoppaður við heimsmetatilraunina af lögreglu í Cutler Bay í Miami á Flórída, þar sem hann býr, eftir árásina á framhaldsskólann í Parkland í Flórída. Fréttir af heimsmetatilraun hans hafa hins vegar nú vakið athygli hundruð bandarískra fjölmiðla og sjálfur segir hann hana ganga vel.

„Fyrir hlaup dagsins í dag þá er ég kominn með 1.080 km, þannig að eftir daginn verða þetta orðnir tæpir 1.100 km,“ segir Jón Eggert er mbl.is ræddi við hann í morgun. „Þetta gengur bara þrælvel og ég er alltaf að hlaupa.“

Jón Eggert hefur sl. 61 dag hlaupið 19 km á dag, en hann stefnir á að hlaupa 1.295 kíló­metra, hjóla 5.152 kíló­metra og synda 200 kíló­metra. Reglur Heimsmetabókar Guinness varðandi heimsmetskráningu eru strangar og þurfti Jón Eggert að fá löggiltan mælingamann til mæla upp á sentimetra hringinn sem hann nú hleypur og mun síðar hjóla. Hann þarf síðan að skrá vegalengdina daglega og notar til þess myndavél sem fest er á derhúfu hans.

Heimsmetatilraunin hefur þegar vakið athygli bandarískra fjölmiðlar og hafa m.a. …
Heimsmetatilraunin hefur þegar vakið athygli bandarískra fjölmiðlar og hafa m.a. FOX News og NBC fjallað um hana. Ljósmynd/Aðsend

Það var einmitt myndavélin og vírarnir sem liggja um hann allan er hann hleypur sem vöktu áhyggjur foreldra skólabarna á Flórída.

„Það var mikil varúð og hræðsla í gangi þannig að fólk var að hringja í lögregluna,“ segir hann og kveðst hafa verið stoppaður ítrekað við hlaupin þessa daga. „Ég velti því fyrir mér á þeim tíma að fara að hlaupa bara á næturnar, en datt síðan í hug að láta bæjarstjórann vita. Hann skrifaði í kjölfarið grein og birti á vefsíðu sinni. Þar sagði hann hvað ég væri að gera og bað fólk vinsamlegast að vera ekki hrætt við þennan mann. Fólk var mikið að skoða þessa síðu eftir skotárásina til að fá upplýsingar um hana, þannig að ég fékk að vera í friði eftir þetta,“ segir Jón Eggert og hlær að minningunni.

Hann kveðst þó orðin vel þekktur í hverfinu þar sem hann býr, sem og hjá þeim sem hann mætir á hlaupaleið sinni.

Auðvelt með að sofna á kvöldin

Jón Eggert er nú búin að hlaupa 19 km á dag í 61 dag og því leikur blaðamanni forvitni á að vita hvort hann sé ekkert orðinn þreyttur, en hann kveðst vera ótrúlega hress miðað við álagið.

 „Það er ekkert meiðslavesen. Ég finn það aðallega í því hvað ég á auðvelt með að sofna á kvöldin,“ segir Jón Eggert og kveðst líka leggja sig í eftirmiðdaginn. „Fyrstu 30-40 dagana þá þurfti ég ekki að sofa á daginn, en nú steinsofna ég alveg í klukkutíma.“

Þegar hlaupakaflanum lýkur taka hjólreiðarnar við og stefnir Jón Eggert …
Þegar hlaupakaflanum lýkur taka hjólreiðarnar við og stefnir Jón Eggert á að vera búinn að hjóla 5.152 km í lok júlí. Ljósmynd/Aðsend

Þó að Jón Eggert hafi sloppið við meiðsl til þessa, lenti hann engu að síður í því sama og sá sem á núverandi heimsmet í lengstu þríþrautinni - öxlin neitaði um tíma að halda þunga höfuðsins. „Þetta er mjög skrýtið, en hjólreiðamenn fá þetta stundum í löngum vegalengdum,“ segir hann. „Ég reddaði þessu með því að fá mér flugpúða og hljóp með hann um  hálsinn í þrjá daga. Þannig náðu hálsvöðvarnir að jafna sig.“ Honum er skemmt þegar hann játar að þetta hafi óneitanlega hafa vakið athygli þeirra sem hann mætti á hlaupunum.

Spurður hvort hann sé ekkert orðinn leiður á að hlaupa sama hringinn, segir hann svo ekki vera. „Leiðin sé mjög fjölbreytileg. Það er mikið lífríki þarna.“ Jón Eggert segist þó vissulega vera farinn að hlakka til að byrja hjólahlutann, en hann gerir ráð fyrir að setjast á hjólið í lok apríl. Þá mun hann hjóla 140-160 km daglega og því fara 7-8 sinnum daglega hringinn sem hann hleypur nú.

Stefnir á þrefalt heimsmet

Heimsmetatilraunin hefur þegar vakið athygli bandarískra fjölmiðlar og hafa m.a. FOX News og NBC fjallað um hana og hundruð fréttastöðvar tóku fréttina upp þaðan. Jón Eggert segir líka gott fyrir Wheel Heroes, sjóð sem aðstoðar foreldra fatlaðra barna við kaup á reiðhjólum, að fá athyglina. En hann er að safna fyrir Wheel heroes með heimsmetatilrauninni. 

Jón Eggert í sundgallanum.
Jón Eggert í sundgallanum. Ljósmynd/Pamela Perez

Jón Eggert gerir ráð fyrir að klára kílómetrana 5.152 sem hann hjólar í lok júlí og að því loknu tekur sundið við og þar vonast hann til að ná hvorki meira né minna en þreföldu heimsmeti.

„Ég er ekki búin að fá grænt ljós á það, en Guinness er að skoða þetta,“ segir hann. „Ef allt gengur hins vegar vel og þeir gefa grænt ljós, þá verða þetta þrjár heimsmetatilraunir  - lengsta þríþrautin og svo heimsmet í 100 km og 200 km skriðsundi, þar sem það hefur enginn ennþá skráð 100 km skriðsund.“ Gangi allt eftir gæti Jón Eggert þar með staðið upp í lok sumars sem þrefaldur heimsmetshafi.

Hægt er að fylgjast með heimsmetstilrauninni á bloggsíðu Jóns Eggerts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert