Fækkar um 20-30% frá bestu mörkuðunum

Ferðamenn frá Mið-Evrópu dvelja lengur á Íslandi og ferðast víðar …
Ferðamenn frá Mið-Evrópu dvelja lengur á Íslandi og ferðast víðar og sögn Bjarnheiðar. mbl.is/RAX

Á þessu ári gæti stefnt í 20-30% samdrátt á ferðamönnum frá ákveðnum kjarnamörkuðum í Mið-Evrópu. Þetta sýnir bókunarstaða þessa hóps í dag og fram á sumarið samkvæmt formanni Samtaka ferðaþjónustunnar.

Hótelrekandi er þó bjartsýnn og segir að skýra megi lægri bókunarstöðu í ár miðað við sama tíma í fyrra með breyttri hegðun ferðamanna sem komi í auknum mæli á eigin vegum í stað þess að bóka langt fram í tímann með ferðaskrifstofum í hópum.

Í morgun sagði mbl.is frá því að áhugi erlendis frá þegar kæmi að því að leita að flugum hingað til lands færi dvínandi. Síðustu ár hefur mikil fylgni verið á milli leita að flugum og komu ferðamanna hingað til lands 7-8 mánuðum síðar, en þetta má meðal annars sjá í rannsókn vefmarkaðsfyrirtækisins The Engine.

„Okkar bestu markaðir“

Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Katla Travel og formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við mbl.is að miðað við bókunarstöðu og upplýsingar sem hún hafi fengið úr samtölum við stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja megi sjá að um 20-30% samdráttur sé á bókunum ferðamanna frá Mið-Evrópu. „Það sem er alvarlegt er að þetta eru okkar bestu markaðir,“ segir hún og bætir við að gestir þaðan dvelji hér lengi og ferðist víða um landið. „Það er ótti um að þetta muni bitna mest á landsbyggðinni,“ segir hún.

Þeir hópar ferðamanna sem hafa verið í mestri sókn koma frá Ameríku og Asíu. „Þeir eru í skemmri tíma og ferðast minna um landið. Eru meira á suðvesturhorninu. Þetta er þróun sem er ekki endilega það besta fyrir Ísland sem ferðamannastað,“ segir Bjarnheiður.

Einstaklingar í stað hópa

Davíð Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela sem reka meðal annars Fosshótel og Grand hótel, segist hins vegar greina aðra hegðun ferðamanna í dag en síðustu ár. Hann tekur undir að það sé samdráttur í komum hópa frá Evrópu, en á móti hafi myndast svigrúm fyrir einstaklinga til að bóka gistingu. Þeir bóki alla jafna með skemmri fyrirvara en ferðaskrifstofur og stærri hópar.

„Fram í tímann er örlítill samdráttur á bókunarstöðu, en það fyllist upp í þegar nær dregur,“ segir Davíð með vísun í þessa breyttu hegðun ferðamanna. Hann eins og Bjarnheiður segist greina fjölgun ferðamanna frá Asíu og Ameríku og að það vegi upp á móti fækkun stærri hópa frá Evrópu. Segir hann að þegar árið verði gert upp telji hann ekki að ferðamönnum muni fækka.

Engin örvænting 

Bjarnheiður segir að ferðaþjónustufyrirtæki voni sannarlega að staðan muni lagast og að það skili sér í bókunum með stuttum fyrirvara fyrir sumarið. Það sem þjarmi hins vegar að fyrirtækjum sé gengið á íslensku krónunni sem sé mjög sterkt. Spurð um viðbrögð ferðaþjónustufyrirtækja við lægri bókunarstöðu og hvort búast megi við að fyrirtæki lækki verð segist hún ekki hafa orðið vör við neina örvæntingu og verðlækkun og geri ekki ráð fyrir því. Segir hún ekki mikið svigrúm í þeim efnum og að arðsemi í greininni sé alls ekki í samræmi við fjölgun ferðamanna undanfarið.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Ljósmynd/Aðsend
Davíð Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela.
Davíð Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert