Hitinn fór í 15,9 stig

Það er vor í lofti og hitatölurnar eru farnar að …
Það er vor í lofti og hitatölurnar eru farnar að sanna það. mbl.is/RAX

Hlýr loftmassi úr suðaustri setti svip sinn á veðurfarið á landinu í dag, einkum á Snæfellsnesi þar sem hitinn fór mest upp í 15,9 gráður við Bláfeld, veðurstöð Veðurstofunnar í Staðarsveit. 

Það verður áfram hlýtt í veðri næsta sólarhringinn en bætir heldur í vind og von er á köflóttri rigningu. Búast má við hægt vaxandi austanátt á landinu í nótt, 10-18 metrum á sekúndu seint í kvöld en 18-25 metrum á sekúndu syðst á landinu fram á morgun. Rigning verður um landið suðaustanvert, en þurrt norðan og vestan til.

Í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands kemur fram að syðst á landinu og við Öræfajökul má búast við snörpum vindhviðum í kvöld, í nótt og framan af morgundegi. Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi, Austfjörðum og Suðausturlandi. 

Þá bætir í úrkomu í nótt og von er á talsverðri rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum fram eftir morgundegi og rigningu með köflum í öðrum landshlutum. Síðdegis á morgun dregur úr vindi og úrkomu um landið sunnan- og austanvert. 

Hiti verður á bilinu 6 til 14 stig, hlýjast á Vesturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert