Illa fóðraðar og vannærðar

Fé hjá bónda á Austurlandi var vannært og þurfti Matvælastofnun …
Fé hjá bónda á Austurlandi var vannært og þurfti Matvælastofnun að aflífa 58 kindur. Vörslusvipting kemur til greina. Mynd úr safni. Ljósmynd/Brynjar Gauti

Sauðfjárbóndi á Austurlandi hefur ekki fóðrað með reglubundnum hætti um 500 kindur sem eru á bænum. Dæmi eru um mikla vannæringu, en 58 kindur hafa þegar verið aflífaðar. Reksturinn sætir þvingunaraðgerðum til þess að koma fénu til bjargar segir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, við mbl.is.

„Það hefur allt fé verið skoðað og það eru um 500 fjár á þessum bæ. Þetta var heilmikil aðgerð“ segir Sigurborg. Hún segir að umræddur aðili hafi verið til sérstakrar skoðunar hjá Matvælastofnun frá því í janúar og að stofnunin hafi einnig farið á vettvang í febrúar, mars og í þessum mánuði. Matvælastofnun hefur haft ítrekuð afskipti af búinu í mörg ár.

Þótt sumt fé sé í góðu standi er fjöldi fjár sem er byrjað að horast niður á bænum að sögn Sigurborgar. Bóndinn var uppvís að því að sinna ekki reglubundinni fóðrun, ásamt því að ástandi á heyinu hafi verið ábótavant.

Matvælastofnun ætlar að fylgjast grannt með framgangi mála næstu vikur. „Við erum með frekari aðgerðir fyrirhugaðar til þess að tryggja velferð fjárins,“ segir Sigurborg. Hún tekur fram að málinu sé ekki lokið og að á þessu stigi sé ekki hægt að útiloka vörslusviptingu og að annar verði fenginn til þess að sjá um féð verði staðan ekki bætt.

Matvælastofnun hefur nú þegar svipt bóndann hluta fjár hans og aflífað 58 kindur. „Við ætlum ekki að bíða eftir því að þurfa að aflífa fleiri. Við erum fyrst um sinn að reyna að koma fóðri í þær og reyna að hjálpa þeim sem eru illa vannærðir. Aflífun er neyðarúrræði. Þetta voru kindur sem ekki var bjargandi,“ segir Sigurborg.

Spurð um hvort Matvælastofnun sé með fleiri staði til athugunar vegna sambærilegra aðstæðna segir Sigurborg ekki vita um neitt af sambærilegri stærðargráðu. Til eru smærri tilvik sem koma upp en „en ekkert sem kallar á svona stórt inngrip,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert