Kvarta yfir slæmu skipulagi á þingi

Oddný G. Harðardóttir.
Oddný G. Harðardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar lýstu furðu sinni á skyndilegri breytingu á því hvaða ráðherrar væru til taks í óundirbúnum fyrirspurnum á þingi. Auk þess furðuðu þingmenn stjórnarandstöðunnar sig á orðum þingforseta sem sagði að þingfundir gætu staðið lengur í dag en þingsköp kveða á um.

Ég vil gera alvarlegar athugasemdir við það að verið sé að hringla hvað eftir annað með viðveru ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma og það gerist með stuttum fyrirvara,“ sagði Oddný Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar. 

Heilbrigðisráðherra átti að vera til svara í óundirbúnum fyrirspurnum en henni var skipt út og í hennar stað var dómsmálaráðherra til svara.

Hún benti á að þingflokksformenn hefðu fyrr í dag rætt um skipulag og fyrirsjáanleika í störfum þingsins. „Ég kvarta undan þessu og geri við þetta athugasemdir og ég bið forseta um að koma því áleiðis til ríkisstjórnarinnar að þetta gangi ekki svona,“ bætti Oddný við.

Þingmenn eru búnir að undirbúa sig til að spyrja ráðherra sem auglýst hefur verið í töluvert langan tíma að muni vera hér til svara. Svo hverfur viðkomandi ráðherra og einhver nýr skýtur upp kollinum. Það er ekki þannig sem við viljum vinna hér,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins.

Þingmenn úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar tóku undir með Oddnýju. Auk þess sögðust þeir ekki hafa haft hugmynd um að gert væri ráð fyrir því að þingfundir gætu staðið lengur en þingsköp gera ráð fyrir.

Þingforseti, Steingrímur J. Sigfússon, sagði að það væri afar óheppilegt þegar skyndilegar breytingar yrðu á viðveru ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum en það gerðist sem betur fer sjaldan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert