„Mátti ekki á tæpara standa“

Frá slysstaðnum skammt frá Kórnum.
Frá slysstaðnum skammt frá Kórnum. Ljósmynd/Þórður Már Jónsson

„Þetta hefði getað farið mjög illa. Það mátti ekki á tæpara standa,“ segir Þórður Már Jónsson lögmaður um bílslys við Kórinn í Kópavogi þar sem skólarúta og vörubíll rákust saman.

Þórður Már fór í Kórinn til að fylgjast með dóttur sinni á fótboltaæfingu. Þegar ekkert bólaði á henni fór hann út úr húsinu og sá þá að áreksturinn hafði orðið.

Ljósmynd/Þórður Már Jónsson

„Krakkarnir voru margir í áfalli þarna inni og margir voru grátandi og gátu ekki hætt að gráta,“ segir hann um skólakrakkana í rútunni og bætir við að farið hafi verið inn í Kórinn með að minnsta kosti tvö börn sem höfðu meiðst.

Fæst barnanna fóru á fótboltaæfinguna vegna þess að þau voru svo miður sín.

Ljósmynd/Þórður Már Jónsson

Að sögn Þórðar Más sátu skólakrakkar í sætum þar sem afturendi vörubílsins fór inn í rútuna og var festing úr afturendanum nálægt því að fara í krakkana, eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum sem hann tók. 

Ljósmynd/Þórður Már Jónsson

Hann segir að tvær rúður á rútunni hafi splundrast og að glerbrot hafi verið úti um alla rútu.

„Ég labbaði þarna inn í rútuna og í endann og það hafði örugglega rignt glerbrotum yfir stóran hluta af börnunum.“

Uppfært kl. 15:25.

Sjónarvottur segir að vörubifreiðin hafi verið kyrrstæð og að rútan hafi ekið utan í hana með fyrrgreindum afleiðingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert