Annar fanginn sem flýr Sogn

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir sjaldgæft að fangar strjúki.
Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir sjaldgæft að fangar strjúki. mbl.is/​Hari

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir í samtali við mbl.is ekki óalgengt að einstaklingar sem sæta gæsluvarðhaldi séu vistaðir í opnu fangelsi. Hann segir einnig sjaldgæft að fangar strjúki, en fanginn sem strauk frá Sogni í nótt er annar fanginn til að flýja þaðan. Áður hafði fangi flúið frá Sogni í febrúar árið 2016. Sá fannst eftir sólarhrings leit.

Rýmum í opnum fangelsum hefur verið fjölgað á síðustu árum að sögn Páls. „Þar vistum við fanga sem við treystum til þess að vistast við opnar aðstæður. Það eru fangar sem við teljum ekki hættulega á þeim tíma sem þeir dvelja þar. Það er sjaldgæft að fangar strjúki úr opnum fangelsum enda er það verst fyrir fangann sjálfan. Þeir sem strjúka úr opnum fangelsum eru fluttir í lokuð fangelsi og úrskurðaðir í agaviðurlög. Þetta getur haft áhrif á allan framgang í afplánun meðal annars reynslulausn“ segir Páll.

Fangelsismálastjórinn segir fjölgun þessara rýma er partur af því að nútímavæða fullnustukerfið á Íslandi og færa það í sama horf og er í nágrannaríkjum. Markmiðið sé að vista ekki fanga við meiri íþyngjandi aðstæður en nauðsynlegt er, hvort sem það eru gæsluvarðhaldsfangar eða afplánunarfangar.

Í upphaflegu fréttinni var haft eftir Páli að um fyrsta strokufangann frá Sogni væri að ræða. Páll hefur leiðrétt þær upplýsingar, en hið rétta er að annar fangi strauk úr fangelsinu í febrúar í fyrra og hefur fréttin verið breytt samkvæmt því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert