Fæðingadeildinni lokað í sumar

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. mbl.is/Helgi Bjarnason

Til stendur að loka fæðingadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Reykjanesbæ í sumar. Þetta segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaramálaráðs Ljósmæðrafélags Íslands, og bætir við að þar hafi verið auglýst mikið eftir starfsfólki, án árangurs.

Fæðingadeildin hefur verið lokuð í fjórar til fimm vikur á hverju sumri undanfarin ár, „sem hefur reynt gríðarlega á Landspítalann“, að sögn Katrínar Sifjar.

Til stóð að hafa deildina opna í sumar en ekki fékkst starfsfólk til að fylgja því eftir.

Að minnsta kosti 20 ljósmæður hafa sagt upp störfum á …
Að minnsta kosti 20 ljósmæður hafa sagt upp störfum á Landspítalanum. mbl.is/Hanna

Sú fyrsta hætti störfum í gær

Á þriðjudaginn höfðu tuttugu ljósmæður sagt upp störfum á Landspítalanum. Spurð út í stöðuna í dag kveðst Katrín Sif ekki vita nákvæmlega hversu margar ljósmæður hafa sagt upp en nefnir að ein þeirra sem sögðu fyrst upp hafi hætt störfum í gær.

„Þetta er byrjað að bíta aðeins,“ segir hún og á þar við stöðu mála á Landspítalanum. „Þetta lítur ekkert alltof vel út, eiginlega bara hræðilega.“

Næsti fundur samninganefnda ljósmæðra og ríkisins er fyrirhugaður á fimmtudaginn í næstu viku.

Katrín Sif segist ekkert hafa heyrt frá samninganefnd ríkisins eftir síðasta fund, sem var árangurslaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert